Wednesday, December 5, 2007

World of Glory

Þegar ég sá þessa sænsku stuttmynd í kvikmyndafræðitíma um daginn þá skildi ég lítið í henni. Tenging upphafsatriðisins við restina af myndinni var torskiljanleg og erfitt var að sjá hvað var í gangi í kollinum á aðalpersónu myndarinnar - þó var augljóst að ekki var allt með felldu. Þegar ég varð mér hins vegar út um myndina með hjálp internetsins og horfði á hana í annað sinn þá fóru línurnar að skýrar.

Í upphafsatriði myndarinnar sjáum við bíl með gám aftan á sér sem er fullur af vesælu fólki. Augljóst er að það á að leiða þetta fólk til slátrunar og sennilega er þetta tenging við "Final Solution" nasistanna í Seinni heimsstyrjöldinni þar sem átti að drepa alla gyðinga, homma, svertingja o.fl. einstaklinga sem nasistunum var illa við. Ég tók hins vegar eftir því þegar ég sá myndina í annað sinn að aðalpersóna myndarinnar er kynnt til sögunnar í þessu atriði og stendur hann fyrir utan bílinn ásamt fjölda annarra. Þetta útskýrir betur hversu bældur hann er eftir stríðið og allt ógeðið sem hann varð vitni að þar. Einnig útskýrir þetta fáránlega hegðun hans á köflum sem jaðra við geðraskanir og viðkvæmni hans fyrir því að heyra manneskju öskra í lok myndarinnar.

Myndin gefur góða sýn á það hversu bælt fólk getur orðið eftir stríð á borð við Seinni heimsstyrjöldina þar sem það verður vitni að ýmsum hörmungum og tekur jafnvel þátt í að hrinda þeim í framkvæmd. Það er ótrúlegt hvað myndin nær að koma þessum skilaboðum frá sér miðað við það hvað hún er stutt og mínimalísk. Það er enginn atburðarás í gangi heldur sjáum við eingöngu aðalpersónuna gefa stutta kynningu á fólkinu í lífi sínu og þrjú atriði til viðbótar sem sýna hversu geðtruflaður hann er orðinn.

Mér fannst þessa mynd stórgóð eftir að hafa horft á hana í annað sinn. Maður verður fyrir svo miklum hughrifum við það að horfa á þetta þegar maður skilur tenginguna við upphafsatriðið og stemmningin sem Roy Andersson leikstjóra tekst að skapa er ótrúleg. Það kom mér ekki á óvart þegar ég sá að þessi mynd hefur verið margverðlaunuð og þar að auki valin besta stuttmynd allra tíma. Það þurfa þó sennilega flestir að sjá myndina tvisvar til að skilja hana fullkomlega, þ.e.a.s. ef þeir hafa ekki lesið sér til um hana fyrir áhorf.

****1/2

No comments: