Friday, December 7, 2007

Mississippi Burning

Kvikmyndin Mississippi Burning er byggð á sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað í Mississippi árið 1964. Þá voru þrír baráttumenn fyrir réttindum svertingja myrtir á kaldrifjaðan hátt en aðeins einn þeirra var svartur, hinir tveir voru gyðingar. Tvær löggur sem eru leiknar af Gene Hackman og Willem Dafoe eru sendar á vettvang til að rannsaka málið og hefði þeim sennilega ekki órað fyrir því hvernig ástandið var í bænum þar sem morðin áttu sér stað. Réttindi blökkumanna voru fótum troðin og þeir áttu sér einskis von þar sem allir sem höfðu einhver völd voru kynþáttahatarar með tengsl við Ku Klux Klan.

Meginþema myndarinnar er að sýna fram á hversu bág kjör blökkumenn bjuggu við á þessum tíma og hversu illa kúgaðir þeir voru af hvítum WASP einstaklingum sem vildu ekki sjá þetta lið í sínu samfélagi. Þetta var nú samt svo ýkt í myndinni að það varð nánast óraunverulegt, enda allir svertingjar sýndir sem bágstaddir og vesælir aumingjar en langflestir hvítingjarnir áttu að vera kynþáttahatar sem fyrirlitu svertingja. Undantekning á því voru hins vegar löggiurnar sem börðust harkalega gegn kúgun á hendur svertingjum sem er líka mjög skrýtið þar sem það ver vitað til þess að löggan tók stóran þátt í þessari kúgun á sínum tíma og lét það oftar en ekki fram hjá sér fara þegar svertingjar voru barnir eða þeim misþyrmt á annan hátt.

Myndin vekur upp sterkar tilfinningar þegar maður horfir á hana, bæði reiði og depurð, enda byggð á sönnum atburðum og sýnir að sumu leyti hversu erfitt það hefur verið að vera svartur í Bandaríkjunum á þessum tíma. Einnig hafa tengsl Ku Klux Klan við bandaríska dómsvaldið verið mjög öflug enda tók það 40 ár að fá Edgar Ray Killen, Ku Klux Klan meðlim, dæmdan fyrir aðild sína að morðunum sem myndin fjallar um en það var ekki fyrr en árið 2004 að hann var dæmdur í 60 ára fangelsi. Þar sem Edgar er fæddur árið 1925 og hefur greinst með húðkrabbamein á hann eflaust skammt eftir ólifað þá hefur það verið afar hentugt að fá þennan dóm svona seint í stað þess að hafa þurft að dúsa inni síðustu 40 ár.

Mér fannst Mississippi Burning mjög góð mynd og aðallega vegna þess hve Alan Parker, leikstjóra myndarinnar, tekst að koma sögunni til skila á áhrifaríkan hátt. Einnig fóru bæði Gene Hackman og Willem Dafoe á kostum og þá sérstaklega Hackman sem hefur sjaldan verið betri. Það er skemmtilegt hvað kvikmyndirnar Missisippi Burning og The Birth of a Nation eru miklar andstæður hvað varðar viðhorf til blökkumanna. En þær eru báðar helvíti góðar þó svo að Mississippi Burning komist ekki á sama klassa og epíkinn sem Birth of a Nation var.

****

No comments: