Thursday, December 6, 2007

Full Metal Jacket

Oft þegar myndir skipast algjörlega niður í tvo hluta verður annar hlutinn mjög góður en hinn hlutinn það lélegur að hann eyðileggur hreinlega fyrir. Gott dæmi um þetta sást t.d. í kvikmyndinni Spartacus frá 1960 sem Stanley Kubrick gerði. En 27 árum síðar hafði Kubrick ekki enn lært af reynslunni en þá gerði hann myndina, Full Metal Jacket. Hún skiptist einnig í tvo hluta; í fyrri hlutanum fylgjumst við með æfingabúðum fyrir Víetnamstríðið en í seinni hlutanum er komið út í stríðið sjálft.

Fyrri hluti myndarinnar er ótrúlega góður. Þar segir aðalpersóna myndarinnar, Joker, frá reynslu sinni úr gríðarlega ströngu og erfiðu æfingaprógrammi fyrir Víetnamstríðið. Þessar æfingabúðir eru það erfiðar að þær henta nánast eingöngu fullvaxta mönnum á besta aldri í mjög góðu formi sem gerir hinum spikfeita og klunnalega, Gomer Pyle, mjög erfitt fyrir. Augljóslega á Pyle ekkert erindi í þessar æfingabúðir og á endanum er foringinn búinn að fá svo gjörsamlega upp í kok af honum að hann ákveður að láta öll mistök sem hann gerir hér eftir bitna á félögum hans. Í kjölfarið byrja ákveðnar geðraskanir að magnast upp í Pyle sem ná svo hámarki í svakalegu atriði sem markar enda góða hluta myndarinnar.

Ég hef oft og mörgum sinnum horft á þennan fyrri hluta myndarinnar en ég hef aðeins einu sinni þraukað í gegnum seinni hlutann sem gerist í Víetnam og ég ætla mér ekki að gera sjálfum mér það að horfa á hann aftur. Það er ótrúlegt hvað myndinni tekst að detta mikið niður eftir æfingabúðirnar þar sem hvert einasta atriði var snilld.

Full Metal Jacket stenfdi í að verða ein besta Víetnam stríðs mynd sem ég hef séð eftir að ég sá fyrri hlutann af henni en einni hlutinn gerði það að verkum að hún kemst ekki í toppinn í þeim hópi. Myndir á borð við Platoon, The Deer Hunter og Apocalypse Now eru t.d. klassanum betri en Full Metal Jacket. Ég gef þessari mynd 4,5-5 stjörnur fyrir fyrri hlutann en seinni hlutinn dregur hana niður í 3,5 stjörnur.

***1/2

No comments: