Saturday, December 8, 2007

Det Sjunde Inseglet

Det Sjunde Inseglet er mynd í leikstjórn Ingmar Bergmans og er því miður eina Bergman myndin sem ég hef séð. Ég mun án efa sjá fleiri myndir með honum á næstunni enda er þessi mynd stórgóð og mjög töff að mörgu leyti.

Myndin gerist á tímum Svarta dauða í Evrópu og fjallar um riddarann Antonius Block sem er nýkominn heim úr Krossferðum. Hann fær svo heimsókn frá dauðanum sem segir að það sé kominn tími í lífinu sé liðinn. Block nær þó að smjaðra sig upp á frest og skorar á dauðann í skák og fær hann þá að lifa svo lengi sem hann tapar ekki

Það svalasta við myndin er klárlega dauðinn, leikinn af Bengt Ekerot, sem er mjög nettur karakter. Þrátt fyrir að hann hafi borið af þá voru hinar aðalpersónurnar líka mjög skemmtilegar. Sagan er einnig mjög góð og hröð enda er myndin aðeins um 90 mínútur. Max von Sydow er einnig mjög góður í hlutverki Antonius Block en sennilega muna flestir eftir honum úr kvikmyndinni The Exorcist.

Det Sjunde Inseglet er mynd sem allir geta haft gaman að og þykir hún einnig vera mjög góð enda var hún margverðlaunuð á sínum tíma. Þessi mynd vakti áhuga minn á Ingmar Bergman sem leistjóra og ef aðrar myndir eftir hann eru jafngóðar og þessi þá hlýtur hann að vera kynngi magnaður leikstjóri.

**** 1/2

Friday, December 7, 2007

Haustönn 2007

Ég vissi lítið um þennan kvikmyndafræðiáfanga þegar ég valdi fagið síðasta vor en var hins vegar spenntur að sjá hvernig þetta yrði. Ég get ekki sagt annað en að ég sé sáttur með útkomuna enda hefur fagið verið stórskemmtilegt í heildina séð þó svo að vissulega hafi sumt verið skemmtilegra en annað.

Ég hef séð margar góðar bíómyndir síðan í haust og sumar þeirra hafði mig langað til að sjá lengi. Þar ber helst að nefna fimm Billy Wilder myndir sem ég horfði á vegna fyrirlestra um kauða. Þær voru allar mjög góðar og er Billy Wilder nú einn af mínum uppáhalds leikstjórum. Meðal annarra góðra mynda má nefna The General, The Cabinet of Dr. Caligari og World of Glory. Sumar myndirnar voru reyndar í lélegri kantinum en þar fara 8 1/2 og American Movie fremstar í flokki.

Verklegi þáttur fagsins hefur ekki verið stór hingað til þar sem við gerðum aðeins eina stuttmynd á önninni sem var klippt í myndavélinni. Gerð myndarinnar var þó stórskemmtileg enda uppskárum við í Ólympíuliðinu hæstu einkunn af öllum. Við stefnum hins vegar ekki á það að hætta á toppnum enda erum við ákveðnir í að byrja á næstu stuttmynd strax í jólafríinu sem verður þá sennilega notuð sem valfrjálsa verkefnið okkar.

Þriðja verkefni annarinnar er svo þessi blessaða bloggsíða. Ég var ekki nógu fljótur að stofna blogg og dróst því aftur úr strax í upphafi. T.d. skrifaði ég aðeins 7 færslur í september mánuði en þá var Bóbó búinn með 19. Ýmis verkefni og leti ullu því síðan að þegar um 2 vikur voru í deadline átti ég eftir að skrifa 21 færslu. Þetta virðist þó vera að klárast núna þar sem þetta er mín 29. færsla af 30 en sú síðasta verður um Det Sjuende Inseglet. Þrátt fyrir tímaleysi hef ég lagt mikið upp úr því að allar færslurnar séu vandaðar en ekki örfáar línur sem ég hripa niður á blað í flýti.

Ég vona að næsta misseri nái að fylgja haustönninni vel á eftir og ég hef í rauninni enga trú á öðru. Á næsta ári bíður okkar ný stuttmyndagerð, nýr fyrirlestur og fleiri bloggfærslur um alveg helling af skemmtilegum bíómyndum sem við eigum eflaust eftir að sjá.

Superbad

Þegar ég fór á kvikmyndina Superbad í bíó þá bjóst ég nú ekki við miklu en mig hafði ekki órað fyrir því hversu ömurlega leiðinleg og glötuð myndin var í raun og veru. Ég hélt að þetta væri mynd með eitthvað smá afþreyingargildi sem maður gæti nú a.m.k. hlegið yfir en ég hefði varla getað haft meira rangt fyrir mér.

Söguþráður myndarinnar er glataður en hún fjallar um tvo aula sem hafa það mission að fara í ríkið fyrir einhvað menntaskólapartý. Heil mynd um tvo sorglega aula, sem fá síðan þriðja aulann í lið með sér sem er meiri auli en hinir tveir til samans, á leið í eitthvað partý er skefileg pæling. Húmorinn í myndinni er einnig lélegur, hún er illa leikin og endirinn er fyrirsjáanlegri heldur en úrslitin í leik Manchester United og Derby um helgina.

Þegar ég kom af þessari mynd úr bíó var ég hundfúll enda leið mér eins og ég hefði kveikt í 1000 kalli og horft á hann brenna í einn og hálfan tíma. Ég varð svo enn þá pirraðari þegar ég fór á IMDb og sá að Superbad var þar á topp 250 listanum yfir bestu myndir allra tíma. Einu sinni var þessi listi marktækur en núna er hann augljóslega orðinn e-ð markaðstól fyrir framleiðendur ömurlegra mynda sem spamma svo einkunnum á hana til að koma myndinni sinnii á einhvern helvítis lista. Það ætti að lóga þessum andskotum sem stunda þetta.

Superbad er svo ömurleg mynd að hún ekki skilið einkun en ég ætla hins vegar að gefa henni sömu útreið og ömurlegir geisladiskar fengu í sjónvarpsþætinnum Konfekt þegar hann var og hét:

Einkunn: Lélegt
Vægi: 0%

Topp 10 listinn (1): American Beauty

"My name is Lester Burnham. This is my neighborhood; this is my street; this is my life. I am 42 years old; in less than a year I will be dead. Of course I don't know that yet, and in a way, I am dead already."

Á þessum orðum hefst hin stórkostlega kvikmynd, American Beauty, sem vermir efsta sætið á mínum topp 10 lista yfir kvikmyndir. Myndin er snilld frá upphafi til enda en þessi upphafsorð fanga athygli áhorfandans strax og henni sleppir ekki fyrr en myndin er búin.

Fyrir það fyrsta þá er persónusköpunin í American Beauty með ólíkindum. Þar fer apalpersónan, Lester Burnham (Kevin Spacey), fremstur í flokki en meðal annarra meginkaraktera í myndinni eru konan hans, dóttir hans, vinkona dóttur hans, þrír nágrannar hans og enn fleiri. Hver einasta persóna hefur sérstakan persónuleika að einhverju leyti en stundum getur verið erfitt að greina hvað er í gangi í hausnum á þeim. Kevin Spacey tekst í myndinni að skapa einn magnaðasta karakter kvikmyndasögunnar, Lester Burnham. Eftir að ég sá þessa mynd þá komst hann í hóp með mínum uppáhalds leikurum enda er þetta ekki í fyrsta sinn sem hann skapar ódauðlegan karakter. Það hafði hann gert áður í myndunum The Usual Suspects og Se7en.

Myndin er mjög dramatísk en inniheldur samt fullt af góðum húmor enda er Lester drepfyndinn á sinn hátt. Það eru líka bara svo mikið af ógleymanlegum atriðum í myndinni sem eru samt svo mínímalísk eitthvað, t.d. þegar (*Spoiler warning*) Lester böstar konuna sína við að halda fram hjá sér (*Spoiler endar*) og þegar hann snappar við matarborðið. Endirinn á myndinni er einnig roslaegur en þar er tilfinningaflæði aðalpersónanna orðið yfirþyrmandi og hinur ýmsustu hvatir ná stjórn á þeim.

Vissulega er myndin vel leikin, tónlistin mögnuð og hún hreinlega vel gerð á allan hátt en ástæðan fyrir því hversu mikið meistaraverk mér finnst American Beauty vera er það hversu svakaleg upplifun það er að horfa á hana. Tilfinningastríð aðalpersónanna er svakalegt og myndin inniheldur hvert snildlarlega atriðið á fætur öðru. Einnig endist myndin mjög vel og ég hef sennilega horft á hana svona 10 sinnum og alltaf haft gaman að. Þeirra sem hafi ekki enn séð þessa mynd þeirra eiga eftir að sjá mikið.

*****

Nafn Rósarinnar

Nafn Rósarinnar er skemmtileg sakamálamynd með Sean Connery í aðalhlutverki. Myndin gerist á munkaklaustri á miðöldum þar sem munkurinn, Vilhjálmur af Baskerville (Sean Connery) er fenginn til að rannsaka dularfull morðmál enda var hann áður nokkurs konar Sherlock Holmes miðalda. Þegar sagan heldur áfram fara svo enn dularfyllri hlutir að eiga sér stað sem sér ekki fyrir endann á.

Myndin kom út árið 1986 en hún er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Umberto Eco frá 1980. Bókin er stórgóð og það er gaman að sjá hversu vel tekst að varpa sögunni yfir á hvíta tjaldið. Myndin hefur mysterískan blæ yfir sér og það er oft mjög töff að fylgjast með klausturlífinu og öllum þeim ströngu reglum sem því fylgir, t.d. er masókista atriðið ótrúlega nett.

Það besta við myndina er það hversu vel henni tekst að byggja upp spennu sem magnast upp alveg til loka. Þetta er því ekki svona mynd sem maður gæti hætt að horfa á þegar hún er hálfnuð, það er algjörlega útilokað. Einnig stendur Sean Connery fyrir sínu í aðalhlutverkinu sem og aðrir leikarar í myndinni, þ.ám. F. Murray Abraham sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í myndinni Amadeus frá 1984. En ég held að Nafn Rósarinnar sé mynd sem allir geti haft gaman að enda er hún stórgóð og æsispennandi.

****

Mississippi Burning

Kvikmyndin Mississippi Burning er byggð á sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað í Mississippi árið 1964. Þá voru þrír baráttumenn fyrir réttindum svertingja myrtir á kaldrifjaðan hátt en aðeins einn þeirra var svartur, hinir tveir voru gyðingar. Tvær löggur sem eru leiknar af Gene Hackman og Willem Dafoe eru sendar á vettvang til að rannsaka málið og hefði þeim sennilega ekki órað fyrir því hvernig ástandið var í bænum þar sem morðin áttu sér stað. Réttindi blökkumanna voru fótum troðin og þeir áttu sér einskis von þar sem allir sem höfðu einhver völd voru kynþáttahatarar með tengsl við Ku Klux Klan.

Meginþema myndarinnar er að sýna fram á hversu bág kjör blökkumenn bjuggu við á þessum tíma og hversu illa kúgaðir þeir voru af hvítum WASP einstaklingum sem vildu ekki sjá þetta lið í sínu samfélagi. Þetta var nú samt svo ýkt í myndinni að það varð nánast óraunverulegt, enda allir svertingjar sýndir sem bágstaddir og vesælir aumingjar en langflestir hvítingjarnir áttu að vera kynþáttahatar sem fyrirlitu svertingja. Undantekning á því voru hins vegar löggiurnar sem börðust harkalega gegn kúgun á hendur svertingjum sem er líka mjög skrýtið þar sem það ver vitað til þess að löggan tók stóran þátt í þessari kúgun á sínum tíma og lét það oftar en ekki fram hjá sér fara þegar svertingjar voru barnir eða þeim misþyrmt á annan hátt.

Myndin vekur upp sterkar tilfinningar þegar maður horfir á hana, bæði reiði og depurð, enda byggð á sönnum atburðum og sýnir að sumu leyti hversu erfitt það hefur verið að vera svartur í Bandaríkjunum á þessum tíma. Einnig hafa tengsl Ku Klux Klan við bandaríska dómsvaldið verið mjög öflug enda tók það 40 ár að fá Edgar Ray Killen, Ku Klux Klan meðlim, dæmdan fyrir aðild sína að morðunum sem myndin fjallar um en það var ekki fyrr en árið 2004 að hann var dæmdur í 60 ára fangelsi. Þar sem Edgar er fæddur árið 1925 og hefur greinst með húðkrabbamein á hann eflaust skammt eftir ólifað þá hefur það verið afar hentugt að fá þennan dóm svona seint í stað þess að hafa þurft að dúsa inni síðustu 40 ár.

Mér fannst Mississippi Burning mjög góð mynd og aðallega vegna þess hve Alan Parker, leikstjóra myndarinnar, tekst að koma sögunni til skila á áhrifaríkan hátt. Einnig fóru bæði Gene Hackman og Willem Dafoe á kostum og þá sérstaklega Hackman sem hefur sjaldan verið betri. Það er skemmtilegt hvað kvikmyndirnar Missisippi Burning og The Birth of a Nation eru miklar andstæður hvað varðar viðhorf til blökkumanna. En þær eru báðar helvíti góðar þó svo að Mississippi Burning komist ekki á sama klassa og epíkinn sem Birth of a Nation var.

****

Thursday, December 6, 2007

Sunset Boulevard

Sunset Boulevard kom út árið 1950 og þótti merkileg fyrir þær sakir að hún markaði endurkomu Gloriu Swanson á hvíta tjaldið. Gloria hafði verið ein af skærustu stjörnum þöglu tímabilsins en eftir að talið hóf innreið sín í kvikmyndasöguna árið 1927 hafði hún lítið sem ekkert sést og var svo gott sem gleymd árið 1950 þegar Sunset Boulevard kom út. Mörgum öðrum stjörnum frá þögla tímabilinu var boðið hlutverkið á undan Gloriu, þ.á.m. Gretu Garbo og Nancy Pickford.

Það mætti segja að Gloria leiki nánast sjálfa sig í myndinni en Norma Dessman, persónan sem hún leikur, er gleymd kvikmyndastjarna frá þögla tímabililnu sem þráir ekkert heitara en endurkomu á hvíta tjaldið. Norma vinnur hörðum höndum að því að skrifa handrit að mynd þar sem hún mun leika aðalhlutverkið og fær hjálp frá handritshöfundnum Joe Gillis sem er leikinn af William Holden. Norma Dessman minnti mig svoldið á mömmuna í Requiem for a Dream þar sem þær lifa báðar algjörlega í sínum eigin draumkennda heimi og halda að stærsta stund lífs þeirra sé í nánd. Ég er ekki frá því að Norma Dessman hafi verið fyrirmyndin að mömmuni í Requiem for a Dream.

Gloria Swanson fékk Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í þessari mynd og var í kjölfarið boðið hlutverk í fjöldanum öllum af kvikmyndum. Hún hafnaði hins vegar öllum tilboðum sem hún fékk og ákvað að leggja leikhæfileikana á hilluna.

Sunset Boulevard er eins og svo margar aðrar Billy WIlder myndir, mjög góð og vel skrifuð með afþreyingarþörf áhorfandans ofarlega í hugi en missir þó svoldið dampinn undir lokin. Reyndar er Sunset Boulevard sennilega sísta Billy Wilder myndin sem ég hef séð hingað til en þarf það endilega að þýða að hún sé léleg? Nei það þýðir að hún sé geðveik og skelli ég fjórum stjörnum á hana af fimm.

****

Topp 10 listinn (2-4)

4. The Green Mile
Frank Darabount hefur gert tvær frábærar fangelsismyndar; The Green Mile og The Shawshank Redemption. Báðar eru meistaraverk og átti ég erfitt með að ákveða hvor þeirra skyldi fá sæti á Topp 10 listanum mínum. Á endanum varð The Green Mile ofan á þar sem mér finnst hún er einfaldlega betri mynd út í gegn. Myndin inniheldur ótrúlega mikið af áhugaverðum persónum en sá sem er mest normal og mannlegastur er Paul Edgecomb en meðal annara áhugaverðra karaktera má nefna John Coffey ásamt Brutus Howell, Eduard Delacroix, Wild Bill og Percy Wetmore. Myndin gerist á dauðadeild sem fær til sína nýjan dularfullan fanga sem virðist harla ólíklegur til að fremja morð. The Green Mile er magnað bíó út í gegn og alltaf þegar maður heldur að myndin geti ekki orðið magnaðari þá toppar hún sjálfa sig. Sagan sjálf, sem Stephen King, er mjög góð en þegar hann skrifaði hana hafði hann sennilega ekki órað fyrir því að það væri hægt að gera jafngóða bíómynd úr henni og raunin varð árið 1999.

3. Metropolis
Metropolis kom út árið 1927 og mér finnst ótrúlegt að það hafi verið hægt að gera svona flotta bíómynd á þeim tíma. Myndin gerist árið 2026 í borginni Metropolis þar sem verkamennirnir búa í neðanjarðarborg og eru hálfgerðir þrælar. Í myndinni verður Freder, sonur skapara og stjórnenda borgarinnar, ástfanginn af Mariu sem er ein af íbúum neðanjarðarborgarinnar. Freder vill helst af öllu koma á sátt milli Metropolis og neðanjarðarborgarinnar en það re hægara sagt en gert. Það er svo margt ótrúlega flott við þessa mynd, t.d. bara Metropolis borgin í heild sinni, hún er eitthvað svo rosaleg. Atriðið þar sem vélmennaútgáfan af Mariu er vakin til lífsins er líka ein mesta snilld sem ég hef séð í bíómynd. Tónlistin er líka stórgóð sem er algjört möst vegna þess að myndin er hljóðlaus en sennilega hefði Metropolis aldrei getað orðið nærri því jafngóð bíómynd ef hún væri með tali. Það sorglegasta við myndina er þó að rúmlega fjórðungur af upprunulegu útgáfunni er að eilífu glataður og munum við því aldrei fá að bera myndina í heild fyrir okkar augu.

2. 2001: A
Space Odyssey
Margir hafa kvartað yfir því að þessi mynd sé hæg og langdreginn og jafnvel leiðinleg. Ég get ekki verið sammála þessu því að þótt myndin sé löng þá naut ég hverrar einustu mínútu enda er myndin frábær frá upphafi til enda. Myndin skiptist í fjóra kafla: The Dawn of men, The Lunar Jouney in the Year 2000, Jupiter mission 18 months later og Jupiter and Beyond the infinitive. 1. kaflinn sýnir samfélag manna áður en þeir þróuðust úr því að vera apar og er hann virkilega góður þrátt fyrir að vera stuttur. Myndin endar svo á einu óhugnanlegasta atriði kvikmyndasögunnar þar sem aðalpersóna myndarinnar, David Bowman, fer í gegnum nokkur stig öldrunar á nokkrum mínútum og endurfæðist svo sem barn. Magnaðasta persónu myndarinnar er hins vegar illmennið, HAL 9000, sem er tölva. 2001: A Space Odyssey er ein af þessum myndum þar sem maður situr límdur við skjáinn allan tímann og hugsar síðan þegar myndin er búin: "Snilld!". Ég öfunda þá sem eiga eftir að sjá þessa mynd vegna þess að hún er ekki nærri því jafn mögnuð þegar maður sér hana í annað skiptið og það er bara svo rosaleg upplifun að sjá hana í fyrsta sinn.

Cannibal Holocaust

Cannibal Holocaust fjallar um hóp ungmenna sem gerir sér ferð í Amazon frumskóginn í leit að mannætum. Ungmennin hyggjast gera heimildamynd um þessa för sína en allt í einu virðist jörðin hafa gleypt þau og ekkert spyrst frá þeim í langan tíma. Leitarflokkur gerir sér þá ferð í frumskóginn þar sem hann finnur filmur hópsins. Þegar leitarflokkurinn er farinn til baka og getur séð það sem er á filmunum kemst að því hver hin hræðilegu örlög ungmennanna voru í raun.

Þessi mynd er hreinn og klár viðbjóður frá upphafi til enda og eftir að hafa horft á hana þakkaði ég fyrir að vera ekki með algjörlega óklippta útgáfu. Meðal þess sem myndin hefur upp á að bjóða eru nauðganir, gróft ofbeldi, stjaksetning og misþyrmingar á dýrum. Af þessum sökum hefur myndin verið bönnuð í heilmörgum löndum, þ.á.m á Íslandi og því er eingöngu hægt að nálgast klippta útgáfu af myndinni hér. Ég hef þó heyrt að Laugarásvídeó sé með óklippta útgáfu undir borði hjá sér.

Auðvitað urðu dýraverndunarsamtök brjáluð þegar myndin kom út enda eru misþyrmingarnar á dýrunum í myndinni algjörlega tilgangslausar og ógeðslegar. T.d. er skjaldbaka krufin í einu atriðinu. Rogero Deodato, leikstjóri myndarinnar, var því kærður og þurfti að borga sekt. Einnig var því haldið fram að fólk hefði verið drepið og nauðgað í alvöru við gerð myndarinnar en Deodato vísaði því algjörlega á bug og það hafa aldrei fundist neinar sannanir þess efnis. T.d. útskýrði hann að konan sem var stjaksett í myndinni sæti í raun á reiðhjólahnakki og að hún héldi spýtunni upp í sér með munninum einum saman.

Cannibal Holocaust hefur haft sín áhrif á kvikmyndsöguna þar sem kvikmyndin, The Blair Witch Project, var stæling á henni. Sennilega hafa margir heyrt um allar draugasögurnar sem spunnust út um þá mynd en þær eru óvenju svipaðar þeim goðsögnum sem til eru um Cannibal Holocaust. Það hefur þó sennilega bara verið eitthvað sölutrikk sem er tilbúningur framleiðenda Blair Witch myndanna.

Í heildina séð hefur þessi mynd upp á fátt annað að bjóða en ofbeldi, morð og viðbjóð en það versta af öllu eru dýramisþyrmingarnar sem eru með öllu tilgangslausar. Maður þarf sennilega að vera masókisti til að geta notið þess að horfa á þessa á mynd því það er ekkert annað en sjálfspíning og þá sérstaklega ef horft er á óklipptu útgáfuna sem ég vil ekki einu sinni ímynda mér hvernig er. Það er þó áhugaverðri spurningu velt upp í myndinni þess efnis hvorir séu meiri villimenn hinn siðmenntaði maður eða mannætur úr Amazon skógi. Annars mæli ég ekki með Cannibal Holocaust nema þá sem eru sjálfspíningarhugleiðingum.

**

Full Metal Jacket

Oft þegar myndir skipast algjörlega niður í tvo hluta verður annar hlutinn mjög góður en hinn hlutinn það lélegur að hann eyðileggur hreinlega fyrir. Gott dæmi um þetta sást t.d. í kvikmyndinni Spartacus frá 1960 sem Stanley Kubrick gerði. En 27 árum síðar hafði Kubrick ekki enn lært af reynslunni en þá gerði hann myndina, Full Metal Jacket. Hún skiptist einnig í tvo hluta; í fyrri hlutanum fylgjumst við með æfingabúðum fyrir Víetnamstríðið en í seinni hlutanum er komið út í stríðið sjálft.

Fyrri hluti myndarinnar er ótrúlega góður. Þar segir aðalpersóna myndarinnar, Joker, frá reynslu sinni úr gríðarlega ströngu og erfiðu æfingaprógrammi fyrir Víetnamstríðið. Þessar æfingabúðir eru það erfiðar að þær henta nánast eingöngu fullvaxta mönnum á besta aldri í mjög góðu formi sem gerir hinum spikfeita og klunnalega, Gomer Pyle, mjög erfitt fyrir. Augljóslega á Pyle ekkert erindi í þessar æfingabúðir og á endanum er foringinn búinn að fá svo gjörsamlega upp í kok af honum að hann ákveður að láta öll mistök sem hann gerir hér eftir bitna á félögum hans. Í kjölfarið byrja ákveðnar geðraskanir að magnast upp í Pyle sem ná svo hámarki í svakalegu atriði sem markar enda góða hluta myndarinnar.

Ég hef oft og mörgum sinnum horft á þennan fyrri hluta myndarinnar en ég hef aðeins einu sinni þraukað í gegnum seinni hlutann sem gerist í Víetnam og ég ætla mér ekki að gera sjálfum mér það að horfa á hann aftur. Það er ótrúlegt hvað myndinni tekst að detta mikið niður eftir æfingabúðirnar þar sem hvert einasta atriði var snilld.

Full Metal Jacket stenfdi í að verða ein besta Víetnam stríðs mynd sem ég hef séð eftir að ég sá fyrri hlutann af henni en einni hlutinn gerði það að verkum að hún kemst ekki í toppinn í þeim hópi. Myndir á borð við Platoon, The Deer Hunter og Apocalypse Now eru t.d. klassanum betri en Full Metal Jacket. Ég gef þessari mynd 4,5-5 stjörnur fyrir fyrri hlutann en seinni hlutinn dregur hana niður í 3,5 stjörnur.

***1/2

Wednesday, December 5, 2007

Topp 10 listinn (5-7)

7. The Silence of the Lambs
Í þessari mynd kynntist ég einni allra eftirminnilegustu persónu sem sést hefur á hvíta tjaldinu; Hannibal Lecter í hlutverki Anthony Hopkins. Hannibal er svo stórbrotinn persónuleiki að maður veit stundum ekki hvort að hann sé snillingur eða kolgeðveikur eða hvort tveggja. Mómentið þar sem hinn kolgeggjaði Hannilbal er fyrst kynntur til sögunnar er í fangelsinu þegar hann segir "A census taker once tried to test me. I ate his liver with some fava beans and a nice chianti" og gefur svo frá sér eftirminnilegt látbragð. Hannibal er þó ekki eina eftirminnilega persónan úr myndinni heldur fjallar hún að stóru leyti um raðmorðingjann Buffalo Bill og er Hannibal fenginn til að hjálpa lögreglunni að góma hann. Þrjár myndir um Hannibal hafa komið út eftir þessa en enginn þeirra getur talist neitt meira en skugginn af forvera sínum.

6. The Good the Bad and the Ugly
Þessi mynd hefur allt til að bera: spennu, dramatík, góða persónusköpun, magnaða tónlist, epísk atriði og ég gæti haldið áfram lengi. Fyrir það fyrsta er hinn stóíski og þögli karakter sem Clint Eastwood tekst að skapa í þessari mynd sennilega sá allra svalasti í kvikmyndasögunni. Tuco (The Ugly) og Angel Eyes (The Bad) eru einnig frábærar persónur hver á sinn hátt. Það sem gerir myndina hins vegar að meistaraverki er frábær tónlist eftir Ennio Morricone og man ég varla eftir því að hafa heyrt jafngóða tónlist í kvikmynd. Í þessi samhengi má nefna atriðið í kirkjugarðinum sem er nokkurs konar uppgjör milli aðalpersónanna þriggja með Ecstacy of gold spilað undir. Algjör epík!

5. A Clockwork Orange
A Clockwork Orange er nokkurs konar blanda af sótsvartri gamanmynd og mikilli dramatík. Til að byrja með fáum við að kynnast hinum illhuga Alex deLarge sem finnst fátt skemmtilegra en að drepa og nauðga. Fyrri hluta myndarinnar sést hann sinna þessum áhugamálum og þá fær maður að sjá hvert snilldarlega atriðið á fætur öðru en þar ber sérstaklega að nefna atriðið á sundlaugarbakkanum sem er dúndrandi snilld. Þegar líður á myndina verður hún ekki alveg jafnskemmtileg en þá kemur hins vegar heimspekilegt ívaf yfir hana og þeirri spurningu er velt upp hvort það sé réttmætt að breyta persónuleika fólks með valdi ef það er breyting til hins betra. Tónlistin í myndinni er einnig mjög góð þó að hún sé að minnstu leyti frumsamin en sinfóníur Beethovens eru notaðar á epískan hátt.

Fyrirlestur um Billy Wilder

Ég og félagar mínir, Bóbó, Slaníel og Marri, renndum svoldið blint í sjóinn þegar við ákváðum að skrifa þennan fyrirlestur. Enginn okkar hafði séð eina einustu Billy Wilder mynd fyrir utan Some like it hot sem ég hafði séð fyrir rúmu ári. Við höfðum hins vegar heyrt marga góða hluti um kauða og vildum velja einhvern skemmtilegan leikstjóra sem við höfðum ekki séð margar myndir eftir.

Áður en við gerðum fyrirlesturinn horfðum við á fimm myndir eftir Billy Wilder en í tímaröð eru þær: Double Indemnity, The Lost Weekend, Sunset Boulevard, Some like it Hot og The Apartment. Skemmst er frá því að segja að allar þessar myndir eru mjög góðar og jafnframt skemmtilegar og á ég mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra. Ég komst þó að þeirri niðustöðu að The Lost Weekend væri best og vermir hún nú 10. sætið á topp 10 listanum mínum. Hinar myndirnar fylgja þó fast á eftir og eru allar í hópi betri mynda sem ég hef séð.

Þegar við byrjuðum að horfa á þessar myndir áttuðum við okkur strax á því að við hefðum valið réttan mann til að gera fyrirlestur um þar sem myndirnar hans Billy Wilder teljast ekki góðar út af einhverju einum þætti eða atriði heldur eru þær gott bíó út í gegn. Reyndar völdum við 5 frægustu myndirnar til að horfa á og þær sem hafa fengið langbestu dómana þannig að við vitum ekki alveg hvort aðrar Billy Wilder myndir haldi sig á sama klassa. Ég mun þó komast að því fyrr en síðar þar sem ég ætla mér að horfa á fleiri myndir eftir Wilder þegar tími gefst.

Vertigo

Kvikmyndin Vertigo kom út árið 1958 og fjallar um hinn lofthrædda lögreglumann, John Ferguson. Vinur John hefur áhyggjur af konunni sinni og fær hann til að njósna um hana. Þar sem John er reyndur leynilögreglumaður gengur nokkuð vel þangað til hann þarf að fylgjast með henni fara upp í ákveðna hæð - þá kemur í ljós að lofthræðslan er öllu öðru yfirsterkara í huga hans.

Þessi mynd er mjög góð í marga staði, t.d. er Jim Stewart sjúklega nettur í hlutverki John Ferguson og plottið kemur skemmtilega á óvart. Einnig koma fram margar sálfræðilegar pælingar eins og þegar John lætur ástkonu sína klæða sig eins og fyrrverandi ástkonu sína. Samt varð ég fyrir ákveðnum vonbrigðum með myndina. Hún var nokkuð hæg á köflum og ástarsagan var á tíðum klisjukennd og leiðinleg. Samtölin milli persónanna í ástaratriðnunm voru líka oft svo heft að mig langaði til að æla. Einnig kom endirinn nokkuð flatt upp á mig og átti ég erfitt með að skilja hvað hefði raunverulega gerst þegar á horfði á myndina.

Ég hef oft séð betri Hitchcock myndir en þessa en hann hefði frekar átt að einbeita sér að því að gera fleiri spennumyndir heldur en ástarmyndir. Það er samt ótrúlegt hveru misjafnar myndirnar hans eru, allt frá því að vera meistaraverk á borð við The Birds og niður í glatað drasl eins og Topaz. Vertigo er þarna mitt á milli og eins og áður kom fram hafði ég búist við betri mynd, þó að hún sé svo sem alveg ágæt.

***

World of Glory

Þegar ég sá þessa sænsku stuttmynd í kvikmyndafræðitíma um daginn þá skildi ég lítið í henni. Tenging upphafsatriðisins við restina af myndinni var torskiljanleg og erfitt var að sjá hvað var í gangi í kollinum á aðalpersónu myndarinnar - þó var augljóst að ekki var allt með felldu. Þegar ég varð mér hins vegar út um myndina með hjálp internetsins og horfði á hana í annað sinn þá fóru línurnar að skýrar.

Í upphafsatriði myndarinnar sjáum við bíl með gám aftan á sér sem er fullur af vesælu fólki. Augljóst er að það á að leiða þetta fólk til slátrunar og sennilega er þetta tenging við "Final Solution" nasistanna í Seinni heimsstyrjöldinni þar sem átti að drepa alla gyðinga, homma, svertingja o.fl. einstaklinga sem nasistunum var illa við. Ég tók hins vegar eftir því þegar ég sá myndina í annað sinn að aðalpersóna myndarinnar er kynnt til sögunnar í þessu atriði og stendur hann fyrir utan bílinn ásamt fjölda annarra. Þetta útskýrir betur hversu bældur hann er eftir stríðið og allt ógeðið sem hann varð vitni að þar. Einnig útskýrir þetta fáránlega hegðun hans á köflum sem jaðra við geðraskanir og viðkvæmni hans fyrir því að heyra manneskju öskra í lok myndarinnar.

Myndin gefur góða sýn á það hversu bælt fólk getur orðið eftir stríð á borð við Seinni heimsstyrjöldina þar sem það verður vitni að ýmsum hörmungum og tekur jafnvel þátt í að hrinda þeim í framkvæmd. Það er ótrúlegt hvað myndin nær að koma þessum skilaboðum frá sér miðað við það hvað hún er stutt og mínimalísk. Það er enginn atburðarás í gangi heldur sjáum við eingöngu aðalpersónuna gefa stutta kynningu á fólkinu í lífi sínu og þrjú atriði til viðbótar sem sýna hversu geðtruflaður hann er orðinn.

Mér fannst þessa mynd stórgóð eftir að hafa horft á hana í annað sinn. Maður verður fyrir svo miklum hughrifum við það að horfa á þetta þegar maður skilur tenginguna við upphafsatriðið og stemmningin sem Roy Andersson leikstjóra tekst að skapa er ótrúleg. Það kom mér ekki á óvart þegar ég sá að þessi mynd hefur verið margverðlaunuð og þar að auki valin besta stuttmynd allra tíma. Það þurfa þó sennilega flestir að sjá myndina tvisvar til að skilja hana fullkomlega, þ.e.a.s. ef þeir hafa ekki lesið sér til um hana fyrir áhorf.

****1/2