Friday, September 28, 2007

The General

The General fjallar um Johnny Gray sem er verkamaður frá Suðurríkjunum í upphafi Þrælastríðsins. Johnny vill helst af öllu ganga til liðs við herinn til að ganga í augun á kærustunni sinni en þegar honum er synjað um inngöngu vill kærastan lítið með hann hafa. Johnny heldur þá áfram að vinna sem verkamaður á lestum Suðuríkjamanna en áður en langt um líður á hann eftir að blandast inn í ótrúleg ævintýri og stríðsátök á milli fylkinganna tveggja.

Til að byrja með er The General ótrúlega fyndin mynd. Buster Keaton nýtir sér hvern einasta möguleika að brandara og margir hverjir eru það fyndið að maður gæti grenjað af hlátri. Einnig leikur Keaton aðalhlutverk myndarinn mjög vel. Þá að það reyni kannski minna á þögla leikara þá þurfa þeir að lýsa tilfinningum sínum með svipbriðgum einum saman og það tekst Keaton frábærlega vel, sérstaklega í byrjun þar sem hann verður hálf-þunglyndur eftir að hafa ekki fengið inngöngu í herinn. Aðrir leikara sýna viðunandi frammistöðu en þeir blikna í samanburði við Keaton sjálfan.


Myndin heldur góðum dampi allan tímann og inniheldur mikið af eftirminnilegum atriðum. Aftur á móti er myndin mjög stutt, einungis 70-80 mínútur, þannig að hún er nánast búinn þegar hún er rétt að byrja. Maður hefði ekki hatað það ef myndin væri svona 20 mínútum lengri, þ.e. 20 mínútur í viðbót af snilld.

Ég held að The General sé mynd sem allir geti haft gaman að þó að hún sé svarthvít, þögul og 80 ára gömul. Hún er ekki bara fyndin og skemmtileg heldur líka mjög góð og eftirminnileg. Það ætti því enginn að verða svikinn af þessu meistaraverki Buster Keaton.

****1/2

Veðramót

Ég skellti mér loksins á Veðramót um helgina eftir að hafa frestað því allt of lengi. Ég var orðinn nokkuð spenntur fyrir myndinni þar sem hún hefur verið að fá ágætis dóma og einnig koma leikstjórinn, Guðný Halldórsdóttir, til okkar í tíma um daginn. Þá var ég í hópi fárra sem höfðu ekki séð myndina en eftir því sem leið á umræðurnar langaði mig allta meira og meira að sjá myndina til að vita hvað var verið að tala um.

Myndin hefst á því að hæstarréttardómari les upp bréf sem rifjar upp hluta af fortíð hennar sem hún hefði helst viljað vera búin að gleyma. Restin af myndinni gerist á vistheimili fyrir vandræðaunglinga (Veðramót) og upplýsir innihald bréfsins fyrir áhorfendum. Aðalpersónur myndarinnar, Selma og Blöffi, hippa-kærustupar úr borginni ákveða að byrja að vinna á Veðramótum og rífa staðinn upp. Vistmennirnir eru hver öðrum dularfyllri og hinir nýju starfsmenn velta því mikið fyrir sér hvers vegna sumir þeirra voru vistaðir á Veðramót.

Leikarar myndarinnar standa sig nokkuð vel og kom það sérstaklega á óvart hversu góðir unglingarnir voru. Þeir sem stóðu upp úr voru Hilmir Snær sem er ávallt solid og Hera Hilmarsdóttir. Myndin hefur einnig mjög góðan stíganda og oft fær áhorfandinn á tilfinninguna að eitthvað rosalegt sé í nánd. Sagan er ágætlega skrifuð og mikið er lagt upp úr frumlegri persónusköpun en aftur móti bjóst maður við stærra climaxi. Einnig er endirinn nokkuð snubbóttur.

Í heildina fannst mér Veðramót vera mjög góð mynd og er sennilega besta íslenska kvikmyndin í langan tíma. Hún toppar vissulega ekki myndir á borð við Engla Alheimsins og Opinberun Hannesar II en myndin er mjög vel gerð, spennandi og frábær skemmtun.

***1/2

Sunday, September 23, 2007

The Ku Klux Klan: A Secret History


Ég gróf þessa heimildamynd upp í forvitni minni eftir að hafa horft á Birth of a Nation. Í myndinni er saga Ku Klux Klan rakin frá lokum Þrælastríðsins og til dagsins í dag.

Í byrjun myndarinnar verður áhorfandinn vitni að samkomu klansins nú á dögum. Þar er allt morandi í tattúveruðum og helskeggjuðum nýnasistum - þessar týpur sem maður vill ekki mæta í dimmu húsasundi. En það sem kom á óvart var að þarna eru líka heilu fjölskyldurnar, venjulegt fólk sem fer saman út úr bænum yfir helgi á Ku Klux Klan samkomu. Þarna eru grillaðar pylsur og fólk spjallar saman en þegar líður á kvöldið fara allir í búningana sína og verða vitni að þeim atburði sem er einkennandi fyrir Ku Klux Klan; hinn brennandi kross.

Ku Klux Klan starfaði upphaflega á árunum 1866-67, þ.e eftir lok Þrælastríðsins. Þrátt fyrir að samtökin hafi gerst sek um fjölmörg kaldrifjuð morð á svertingjum eiga þessi samtök lítið skylt með því Ku Klux Klan sem var endurreist árið 1915, sama ár og kvikmyndin The Birth of a Nation kom út. Það var meþódistinn William J. Simmons sem á heiðurinn að endurreisnin samtakanna.

"[William Joseph] Simmons claimed the idea of starting a new clan came to him in a vision. The birth of the group was simply a matter of timing. The moment arrived with the release of one of the greatest cinematic achievement of it's time. Just days following the Stone Mountain crossburning The Birth of a Nation was released in the south. D.W. Griffith's film played a sold out theater. The filmmaking was flawless, the history was not."

Upp úr þessu varð til það skrímsli sem allir hugsa um þegar minnst er á Ku Klux Klan. Samtökin voru á sínum tíma gríðarlega stór og innihéldu marga stjórnmálamenn og aðra hátt setta aðila úr þjóðfélaginu. Heilmargir voru myrtir, aðallega svertingjar en einnig þeir sem kallaðir voru "nigger-lovers". Viðbjóðurinn náði svo hápunkti þegar fjórar ungar stúlkur voru sprengdar í tætlur á leið í sunnudagaskólann. Það var ekki fyrr en loks á 7. áratugnum að rödd hinna kúguðu blökkumanna fór að heyrast af krafti með menn eins og Martin Luther King í farabroddi. Eftir það hefur Ku Klux Klan farið minnkandi er núna, eins og áður kom fram, einungis skugginn af sjálfu sér.

Ég hef oftast mjög gaman af heimildamyndum um áhugaverð og söguleg efni en þessi þótti mér alveg sérstaklega góð. Það hefur greinilega mikið verið lagt í myndina, rannsóknarvinnan er vel unnin og sagan er sögð á mjög dramtískan, en jafnframt áhrifaríkan hátt. Til að kóróna þetta voru svo sýndar myndir af öllum fórnarlömbum sem minnst var á - mjög tilfinningaþrungið. Þeir sem hafa gaman að sögulegum heimildamyndum verða ekki sviknir af þessari.

The Birth of a Nation


Sennilega hafa fáar myndir haft jafnafdrifaríkar afleiðingar og stórvirkið The Birth of a Nation. Það var í kjölfarið af frumsýningu þessarar myndar að hin herskáu samtök Ku Klux Klan voru endurreist eftir að hafa legið í dvala í 50 ár. Samtökin eru til enn þann dag í dag en eru nú aðeins skugginn af sjálfum sér miðað við áhrifamátt þeirra áður fyrr.

Myndin hefst árið 1860 og segir frá tveimur fjölskyldun, önnur er frá Norðurríkjunum en hin frá Suðurríkjunum. Saga þeirra er svo rakin í gegnum ýmsa sögulega atburði á borð við Þrælastríðið, morðið á Abraham Lincoln og stofnun Ku Klux Klan. Vendipunktur myndarinnar á sér klárlega stað í Ford leikhúsinu þar sem John Wilkes Booth myrti Lincoln og kallaði svo "Sic semper tyrannis". Eftir það hefst upplausnin í Suðurríkjunum og er þá einblínt á dýrslegt eðli svarta kynstofnsins.

Skilaboð myndarinnar eru skýr: svertingjar og hvítingjar munu aldrei geta lifað saman í sátt og samlyndi. Svertingjarnir eru sýndir sem ofbeldisfullar og illa upp alandi skepnur sem girnast hvítar konur. Þegar þeir komast svo til valda undir forystu hins illa hvítingja Silas Lynch er litið á stofnun Ku Klux Klan sem nauðsynlegt skref til að uppræta upplausnina í samfélaginu. Ku Klux Klan eru góðu gæjarnir, svertingjar eru vondu gæjarnir. Einföld skilaboð.

Þegar maður horfir á myndir á borð við The Birth of Nation verður að hafa í huga að þær voru gerðar fyrir rúmum 100 árum enda fær myndin að líða mikið fyrir skort á tæknibrellum. En aftur á móti inniheldur myndin heilmikið af eftirminnilegum atriðum sem eiga sér fá lík í kvikmyndasögunni. Í þessu samhengi ber helst að nefna morðið á Abraham Lincoln ásamt atriðinu þar sem hugmyndin að Ku Klux Klan búningunum kviknaði. Myndin er einnig mjög fyndin á köflum en húmorinn fær aðallega að bitna á svertingjum og þeirra fáránlegu hegðun.

Það getur sennilega ekki hver sem er haft gaman að meira en þriggja tíma, hlóðlausri og svart-hvítri mynd frá 1915. Ég datt hins vegar algjörlega inn í myndina frá fyrstu mínútu og hafði mjög gaman að henni. Sagan er mjög vel sögð og sögulegi bakgrunnurinn er áhugaverður. Frábær mynd!

****1/2

Saturday, September 22, 2007

Opinberun Hannesar II - Stuttmyndagerð


Þann 10. september sl. fékk ég smjörþefinn af gerð kvikmynda ásamt félögum mínum úr Ólympíuliðinu í skítkasti. Það fyrsta sem við gerðum var að skrifa handrit (eða drög að því). Arnar Már Ólafsson fékk þá frábæru hugmynd að gera kvikmynd um mormónatrúboða og var það svo sannarlega e-ð til að vinna með. Eftir handritaskrifin skipuðum við í hlutverk. Ákveðið var að ég og Ingólfur Halldórsson lékum mormónana tvo, Arnar Már Ólafsson léki fórnarlamb mormónanna og Árni Þór Árnason léki gæjann úr Vottum Jehóva.

Áður en tökur hófust reyndum við að fá tilfinningu fyrir myndavélinni og læra á það sem við þyrftum að nota. Það tók skamman tíma og því var haldið niður í 10-11 á Hjarðarhaga þar sem fyrsta skotið var tekið. Þar ætlaði afgreiðslumaðurinn fyrst að banna okkur að taka upp skotið en eftir nokkur símtöl við verslunar- og framkvæmdastjóra þar sem við lýstum atriðinu sem við hygðumst taka upp ítarlega fengum við leyfið.

Tökurnar gengu ágætlega en við sáum fljótt að myndin yrði skelfilega klippt þar sem við fengum eingöngu að nota myndavélina til þess. Einnig komumst við að þeim mistökum þegar við vorum hálfnaðir með tökur að við hefðum tekið alla myndina upp með hljóðið still á 32k. Það eina sem var tekið upp í 48k var byrjunaratriðið sem við ætluðum að audio-döbba en síðan höfum við einhverra hluta vegna breytt yfir í 32k. Þetta eru mistök sem við munum læra af en við tókum þá ákvörðun að breyta ekki aftur yfir í 48k til að koma í veg fyrir ósamræmi. Önnur mistök sem við gerðum (og áttuðum okkur ekki á fyrr en horft var á myndina seinna meir) var að sum atriðin voru illa lýst. Þetta er annað atriði sem við munum passa upp á í komandi framtíð.

Þegar tökur voru búnar hófumst við handa við að audio-döbba tvö atriði. Fyrra atriðið sem við döbbuðum var tekið upp í 48k og gekk það mjög vel. Seinna atriðið var tekið upp í 32k þannig að lagið átti að koma yfir hljóðið í myndinni. Við sáum strax að það þurfti að breyta öðrum aðferðum til að audio-döbba það og tók það okkur rúman hálftíma að komast að réttu aðferðinni. Blessunarlega tókst það hins vegar á endanum og þá loksins var myndin fullkláruð.

Myndin varð á endanum rúmar sjö mínútur. Í heildina séð er ég nokkuð sáttur við útkomuna þrátt fyrir ýmis byrjendamistök á köflum. Ég hlakka hins vegar til að fá annað tækifæri til að gera mynd sem við getum lagt meiri vinnu í og klippt í tölvu. Nú þegar erum við Ólympíuliðsmennirnir komnir með hugmyndir að handritum fyrir næstu myndir og það er varla hægt að segja annað en að við iðum í skinninu yfir að fá að hrinda þeim í framkvæmd.

Saturday, September 8, 2007

American Movie

Fáfróður og skapbráður alkhólisti sem lifir fyrir að búa til hrollvekjumyndir en er samt þriggja barna faðir, fyrrverandi dópisti sem er svo útúrreyktur að ekkert af viti kemur út úr honum og ellismellur sem er kominn svo nálægt dauðabeðinu en getur varla talað eða hugsað lengur. Þetta er lýsingin á þremur helstu persónunum í American Movie; Mark, Mike og Uncle Bill. Nú mundu flestir sem leggja saman tvo og tvo sjá að þessir þrír kauðar smellpassa inn í hvaða Hollywood grínmynd sem er en nei, kæru lesendur, þarna höfðuð þið rangt fyrir ykkur. American movie er ekki leikin grínmynd heldur heimildamynd um tvö ár í lífi kvikmyndagerðarmannsins, Mike Borchardt. Á þessum tveimur árum vinnur hann að gerð myndarinnar 'Coven' sem er 40 mínútna, svarthvít hrollvekjumynd og er hún gerð í þeim tilgangi að fjármagna gerð annarrar bíómyndar. Sú mynd er enn í vinnslu, 10 árum síðar.

Pælingin á bak við American Movie hlýtur að vera sú að leikstjóri og framleiðandi myndarinnar, Chris Smith, hafi einn daginn rekist á Mark og félaga fyrir tilviljun og séð hvað þeir væru fáránlegir. Hann hefur svo fengið þá snilldarhugmynd að græða á þeim með því að gera tveggja tíma heimildamynd sem sýnir þá í action allan tímann. Þetta virkar ágætlega til að ná fram nokkrum drepfyndnum atriðum en til lengdar verður mynd sem þessi langdregin. Annar ókostur við myndina er að áhorfandinn fær litla samúð með Mark sem á þann draum heitastan að meika það í kvikmyndabransanum enda er hann, eins og áður kom fram, skapbráður og of oft í glasi. Aftur á móti eru vinur hans, Mike og Uncle Bill skemmtilegustu persónurnar og eiga þeir heiðurinn af besta gríninu í myndinni. Það sem stóð sérstaklega upp úr var þegar atriðið í Coven sem Uncle Bill lék í var tekið upp en tökurnar sem þurfti í það skiptu tugum.

Að öllu jöfnu hef ég gaman af heimildamyndum enda fjalla þær oftast um hluti sem eru áhugaverðir. American Movie fellur því miður ekki inn í þann hóp og einnig finnst mér það frekar tæp pæling að gera mynd um fólk einungis í þeim tilgangi að gera grín að því. Vissulega á myndin sína ljósu punkta og er fyndin á köflum en á heildina litið er hún langdregin enda ekki nógu áhugaverð til að fanga athygli áhorfandans allan tímann.

**1/2 /*****

Friday, September 7, 2007

Astrópía

Þegar ég skellti mér á Astrópíu um daginn get ég ekki sagt að væntingarnar hafi verið miklar. Þetta var bara enn ein low-budget íslensk kvikmynd en í þetta skiptið með mörgum óreyndum leikurum í stærstu hlutverkunum og leikstýrt af manni sem ég hafði aldrei heyrt um. Skelfileg blanda.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að það sé óþarft að rekja söguþráð myndarinnar hér þannig að við skulum vinda okkur beint í sleggjudómana. Leikararnir komu margir mjög á óvart og þá sérstaklega Snorri Engilbertsson sem lék Dag. Ragnhildur Steinunn stóð sig líka ágætlega en missti svoldið dampinn í rómantísku atriðunum. Sennilega er ástæðan sú að hún hafi vitað það vel hversu leiðileg þessi ástarsaga væri og sýndi hug sinn í verki með lélegum leik. Davíð Þór Jónsson var áberandi lélegastur af aðalleikurunum en hann lék einmitt óþokka myndarinnar. Mér finnst alltaf mikilvægt að vondi gæinn í bíómyndum sé vel leikinn til þess að hann verði hreint illmenni og þar með eftirminnileg persóna. Maður var svo sem ekki að búast við neinum Hannibal Lecter eða Darth Vader en Jolli (persónan sem Davíð Þór lék) nálgast alveg botninn hvað þetta varðar.

Söguþráður myndarinnar er þokkalegur fyrir utan rómantísku hliðarsöguna. Það að heimsk gella byrji að vinna í nördabúð er alveg áhugaverð pæling en að láta hana svo verða ástfangna af einum nördanum er fyrirsjáanlegt, ófrumlegt og leiðilegt. Myndin spilar einnig mikið út á það að kreista fram hlátur hjá áhorfandanum og tekst það misvel. Pétur Jóhann og Sverrir Þór fóru þar fremstir í flokki en þeir eru nánast djókandi út alla myndina. Ég ætla ekki að neita því að ég hafi skellt upp úr yfir nokkrum bröndurunum en sumir þeirra hittu alls ekki í mark. Í heildina séð er Astrópía ekki ólík flestum íslenskum bíómyndum; ágætis afþreying en skilur ekki neitt eftir sig.

**/*****