Monday, October 15, 2007

RIFF - Ledsaget udgang


Ég skellti mér á Temporary Release á lokadegi RIFF þar sem það var uppselt á 4 mánuði, 3 vikur og 2 daga. Myndin er dönsk og fjallar um tvo menn; John, fanga sem fær að fara úr fangelsinu í einn dag vegna brúðkaups sonar síns og Bo, fangvavörðinn sem á að fylgja honum. Í gegnum alla myndina er fylgst með þessum kauðum við hvert fótmál.


Það sést strax í byrjun hversu ólíkir karakterar Bo og John eru þar sem Bo er hógvær og lítillátur en John harður og dónalegur. Bo virðist ekki vera þeim vanda vaxinn að fylgjast með John sem ætti að geta flúið auðveldlega. Þegar lengra dregur í myndinni eru persónurnar svo allt í einu skapaðar upp á nýtt og þá sérstaklega Bo. Hann verður skyndilega að einhverjum allt öðrum náunga en þeim sem við höfðum verið að fylgjast með alla myndina. Þetta er liður í þeim rembingi leiktjórans að búa til alveg rosalegt plott á myndina en sú tilraun hans er því miður frekar mislukkuð. Úr verður ruglingslegur endir þar sem áhorfandinn skilur varla hvað snýr upp eða niður lengur.


Myndin er á heildina litið ekkert spes. Á tímabili var hún reyndar mjög fyndin og margir leikaranna stóðu sig ágætlega svo hún er langt frá því að vera alslæm. En það versta er hins vegar, eins og áður kom fram, sorgleg tilraun leikstjórans til að búa til trylltan lokakafla, í anda mynda eins og The Usual Suspects og The Sixth Sense, sem getur í besta falli talist kjánlegur.


**



RIFF - Hiena

Ég get ekki sagt að ég hafi farið á þessa pólsku mynd með væntingarnar í hámarki en engu að síður var ég spenntur fyrir hátíðinni þar sem þetta var fyrsti dagurinn. Ég varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar myndin byrjaði þar sem ég komst að því að það var ekki lagður meiri metnaður í þessa hátíð en svo að myndin var sýnd í hræðilegum gæðum. Þar að auki vantaði hljóðið fyrstu mínútur myndarinnar og í einu atriðinu vantaði texta og þar hafa væntanlega fáir skilið hvað fór fram aðrir en pólsku verkamennirnir aftast í salnum.

En lengi getur vont versnað. Ég komst fljótt að því ég hafi ekki bara haft fyrir því að fara í bíó til að sjá mynd í skelfilegum gæðum heldur einnig til að sjá ömurlega mynd. Söguþráður myndarinnar var óáhugaverður og byggðist á því að aðalpersóna myndarinnar tók kjaftasögu frá félögum sínum of alvarlega. Síðan var rembst við það að byggja upp spennu í myndinni t.d. með því að taka upp sömu víðskotin aftur og aftur sem varð mjög þreytandi á endanum.


Myndin náði aldrei neinum dampi og maður náði aldrei að detta inn í myndina. Sennilega er þar miklu um að kenna lélegum hljóðgæðum þar sem myndin spilar mikið út á það að búa til stemmningu út frá tónlist og öðrum hljóðum. Öll hljóð og tónlist hljómuðu hins vegar eins og ískur í þessari bíóferð.


Myndin skilur lítið sem ekkert eftir sig nema það hversu ömurlegt það hlýtur að vera að búa í Póllandi ef maður er fátækur. Ég velti því hins vegar mikið fyrir mér eftir sýninguna af hverju það væri verið að sýna mynd sem þessa á Riff kvikmyndahátið og af hverju er verið að sýna hana í svona lélegum gæðum. Þetta eru ekkert annað en slæleg vinnubrögð aðstanda hátíðarinnar sem gera ekkert annað en að koma slæmu orði á eflaust ágætis kvikmyndahátið.


*