Wednesday, April 16, 2008

Um athyglisverða einkunnagjöf Sigurðar Páls Guðbjartssonar

Fyrr í kvöld birti Siggi Palli einkunnir fyrir stuttmyndirnar á heimasíðunni sinni. Þær voru sem hér segir:


0:15 – 10

Look Around You – 9

Endurfundir – 8,5

Syndir feðranna – 8,5

Númer 46 – 9,5


Eins og sjá má fékk myndin sem við í Ólumpíuliðinu gerðum lægstu einkunn (ásamt Endurfundum) og var t.d. lægri en mynd Bjarka Ómarssonar og félaga, Look Around You. Á þetta má líta.


Fyrsta skrefið í ferlinu var að skila handriti að stuttmyndinni. Einn hópur skilaði handritinu á réttum tíma og hann fékk lægstu einkunn. Einn hópur skilaði handriti sem var ekki notast við því að eigin sögn nenntu þeir ekki að fylgja því. Þessi hópur fékk hæst einkunn. Áður höfðum við farið yfir það hvernig á að byggja upp handrit og þar voru eftirfarandi atriði lögð til grundvallar:


  1. Undirbúið atburðarásina með því að sýna söguhetjuna við eðlilegar aðstæður.
  2. Kynnið hvatann til sögunnar. Hvatinn getur verið hvað sem er, en hann verður að hafa sýnileg áhrif á söguhetjuna, því hann hrindir atburðarásinni af stað.
  3. Byggið upp atburðarásina með röð atburða þar sem söguhetjan reynir að yfirstíga hindranir sem hindra hann í að ná markmiði sínu (meginhvötinni). Hindranirnar ættu sífellt að verða stærri, þangað til hámarkinu er náð.
  4. Ljúkið atburðarásinni þannig að söguhetjunni takist eða mistakist.
  5. Ljúkið handritinu á stuttri senu (eða einu skoti) sem sýnir aðstæður söguhetjunnar í lok myndar.

Önnur myndanna sem fékk lægstu einkunn, Syndir feðranna, var eina myndin til að fylgja þessum reglum og þeim var fylgt nákvæmlega. Enginn þeirra mynda sem fékk hærri einkunn en Syndir feðranna fór eftir þessum reglum og flestar voru þær langt frá því.


Skv. wikipedia eiga stuttmyndir að vera 20-40 mínútna langar skv. evrópskum stöðlum. Enginn myndanna náði þessari lengd en ein mynd var þó nálægt því og það var Syndir feðranna sem er 17 mínútur að lengd. Flestar aðrar myndir voru ca. 10 mínútum styttri og hæst dæmda myndin var 8 mínútur. Ef ég man rétt var myndin Look Around you aðeins 4-5 mínútur en það dugði samt til þess að fá 9 þrátt fyrir að lengd myndarinnar væri aðeins rétt rúmur þriðjungur af lengd Synda feðranna.


Það var augljóslega lögð mest vinna í að gera vel leikna mynd hjá okkur í Ólympíuliðinu. Við fengum tvo mjög góða utanaðkomandi leikara í tvö af stærstu þremur hlutverkunum og svo stóð Bóbó líka fyrir sínu og vel það. Ég ætla ekkert að vera að name-droppa neina sem stóðu sig illa í öðrum myndum en þeir taka bara til sín sem eiga.


Hvað varðar klippingu og önnur tækniatriði þá stóðu 0:15 menn sig klárlega langbest þar. Ýmislegt hefði mátt fara betur hjá okkur í Ólympíuliðinu en ekkert var það stórvægilegt að ekki hafi verið hægt að búast við því frá strákpjökkum sem eru nýbúnir að læra á klippiforritið með fikti. Þessi þáttur hefur augljóslega vegið miklu þyngra en allir aðrir við einkunnagjöf Sigga Palla en þrátt fyrir að hann væri eingöngu hafður til tilsjónar þá er 8,5 ekki sanngjörn einkunn miðað við einkunnir annarra mynda.


En hvað nefnir Siggi Palli sem styður það að Syndir feðranna fái lægstu einkunn? Kíkjum á brot af því:


Hér var ýmislegt sem virkaði ekki alveg. Þetta er hiklaust efni í skemmtilega mynd, en einhvern veginn fannst mér eins og það vantaði eitthvað upp á heildarmyndina.


Það að segja „að eitthvað vanti upp á heildarmyndina“ verður að teljast einkennileg athugasemd. Eins og áður kom fram var farið nákvæmlega eftir uppbyggingu á handriti sem farið var yfir í tíma einmitt til þess að heildarmyndin skilar sér. Hvert einasta atriði leiðir af öðru og öll atriðin hafa tilgang sem er svo mikilvægt skv. Robert McKee. Hugsanlega var upphafsatriðið þó í lengri kantinum en það hafði svo sannarlega tilgang.


Hvaða tilgangi gegndi t.d. upphafssenan? Hvernig fleytti hún handritinu áfram?


Hérna koma aftur tvær einkennilegar spurningar enda er þeim báðum auðsvarað: Upphafsenan gegndi þeim tilgangi að sýna aðalpersónu myndarinnar við eðlilegar aðstæður eins og á að gera og hún fleytir handritinu áfram að því leyti að aðalpersónan fær símtal í lok atriðisins þar sem honum er tilkynnt að faðir hans sé látinn. Sagan sem var sögð hefði þó kannski mátt vera aðeins styttri en við nenntum bara ekki að hengja okkur í einhverju mínútuspursmáli.


Sama hvað ég pæli í því þá skil ég ekki af hverju hljóðvinnslan í bílasenunni
ætti að þykja fyndin eða sniðug. Í fyrsta lagi má setja spurningamerki við það að klippa alltaf yfir á pokann í einræðu aðalpersónunnar - það er ekki eins og við séum forvitin um viðbrögð pokans við ræðunni (mér fannst það samt alveg virka). En af hverju í ósköpunum að nota annað umhverfishljóð í skotunum af pokanum -þótt það sé gert viljandi þá virkar það samt viðvaningslega á mig.


Það var augljóst að hljóðvinnslan í bílasenunni var sniðug vegna þess að hún skapaði ákveðna vandræðalega stemmningu milli feðganna sem var vel við hæfi vegna aðstæðnanna sem var pabbinn var búinn að koma syni sínum í. Það að klippa alltaf yfir á líkpokann gerði þögnina enn óþægilegri sem var einnig vel við hæfi vegna þess hversu óþægilega syninum leið og það versnaði bara með hverri mínútu í bílnum. Síðan skil ég ekki af hverju það er “sett spurningamerki” við það tiltekna atriði bara til að til að segja í næstu setningu “mér finnst það samt alveg virka”. Annað umhverfishljóð kom einnig inn í það að gera stemmninguna óþægilega af ofangreindum ástæðum.


Bottom line: Við Ólympíuliðsmenn eyddum gríðarlega miklum tíma og vinnu í það að gera myndina sem besta. Við vorum lengi að skrifa handritið því við vildum að það stæðist allar formkröfur, yrði ekki samhengislaust, samtölin yrðu ekki heft o.s.frv. Til að mynda var fyrsta uppkastinu sem skrifað var nánast eytt algjörlega og það skrifað nokkrum sinnum upp á nýtt og svo breytt smávægilega við tökur til að fullkomna það algjörlega. Við fengum bestu leikarana innan veggja skólans til að leika í myndinni okkar til að tryggja góðan leik. Við kunnum nánast ekkert á Final cut áður en við klipptum myndina en náðum samt að krafsa okkur fram úr þessu og skila klippingu og hljóðvinnslu ágætlega frá okkur. Þar að auki lögðum við líka áherslu á smáatriði og fórum t.d. í retakes þegar við sáum að það vantaði örfá stutt skot hér á þar upp á heildarmyndina. Við hefðum getað gert 4-8 mínútna mynd sem hefði ekki staðist neina af kröfunum um handritagerð, verið illa leikin og með heftum samtölum. Síðan hefðum við líka getað fengið eitthvað klippinörd til að sjá um klippinguna og aðra eftirvinnslu? Hefði það skilað okkur hærri einkunn? Ja maður spyr sig…


Siggi Palli hlýtur að átta sig á því að það er eitthvað bogið við þessa einkunnagjöf hans og það verður fróðlegt að sjá hver viðbrögð hans verða: Mér dettur tvennt í hug:


  1. Hann tekur mark á athugasemdum okkar og sér að einkunnin sem við fengum var ekki sanngjörn. Í kjölfarið hækkar hann okkur um einn heilan og biðst afsökunar.
  2. Hann dettur í bullandi afneitun og ver einkunnirnar sínar með kjafti á klóm. Segir að við séum bara að væla og minnir á þegar Bjarki Ómarsson vældi yfir því að hafa bara fengið 3 stig fyrir bloggfærslu hér í den.

Nú er bara að bíða og sjá..

4 comments:

Siggi Palli said...

Eitt er það sem ég skil ekki: hvaðan fáið þið þá hugmynd að 15 mínútna mynd sé betri en 5 mínútna mynd? Stuttmyndir eru orðnar frekar langar þegar þær eru komnar yfir 15 mínúturnar - sem dæmi vilja Stuttmyndadagar helst ekki að myndir fari yfir 15 mínútur.
Að öðru leyti vona ég að færslan á námskeiðssíðunni svari spurningum þínum.

Ingólfur said...

Þetta er pínu misskilningur sem er í gangi hér og á blogginu hans Jóns. Það er ekki átt við að lengd skapi endilega betri mynd, haldur mögulega metnaðarfyllri. Það tengist þá aðallega handritaskrifunum myndi ég ætla. En ég skrifaði ekkert svona á bloggið mitt þannig að ég þarf ekki að verja það...

Anonymous said...

Hello. This post is likeable, and your blog is very interesting, congratulations :-). I will add in my blogroll =). If possible gives a last there on my blog, it is about the Livros e Revistas, I hope you enjoy. The address is http://livros-e-revistas.blogspot.com. A hug.

Siggi Palli said...

Margir réttmætir punktar og ekkert að því að segja sína skoðun. 8 stig.