Tuesday, April 15, 2008

Hannibal

Forveri þessarar myndar, The Silence of the Lambs, er ein af mínum uppáhaldsmyndum enda á hún öruggt sæti á topp 10 listanum mínum. Ég var því fullur eftirvæntingar þegar ég sá Hannibal fyrst þó ég hafi kannski ekki búist við neinu meistaraverki þar sem um framhaldsmynd er að ræða.

Myndin er beint framhald af The Silence of the Lambs og fjallar um það þegar Hannibal er á flótta undan bandarísku alríkislögreglunni á Ítalíu. Lögreglukonan, Clarice Sterling, er sem fyrr í farabroddi í leitinni að Hannibal en í þessari mynd er það Julianne Moore sem leikur hana en ekki Jodie Foster. Anthony Hopkins er þó enn í hlutverki Hannibals enda hefði annað verið epískur skandall.

Hannibal stenst engan veginn samanburð við The Silence of the Lambs. Hannibal er vissulega svalur í myndinni engan veginn jafnsvalur og hann var í forvera sínum þar sem hann stimplaði sig inn sem eitt allra nettasta illmenni kvikmyndasögunnar. Julianne Moore er heldur ekki með tærnar þar sem Jodie Foster var með hælana í hlutverki Clarice Sterling enda fékk Jodie Óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt í The Silence of the Lambs. Það sem hrjáir myndinni mest er það hvað það gerist lítið í myndinni; Hannibal er á flótta undan löggunni svo er hann enn á flótta undan löggunni og svo er hann enn á flótta undan löggunni. Lítið gerist í myndinni þess á milli fyrir utan nokkur ógeðfelld atriði sem eiga að minna á hversu mikið illmenni Hannibal er. Í rauninni gerðu þau atriði þó fátt annað en að draga úr nettleika hans því mínimalisminn í fari hans var alltaf það svalasta í fari hans. Stór hluti ástæðunnar fyrir því að The Silence of the Lambs var svona góð var hliðarsagan með Buffalo Bill. Hún fullkmonaði myndina algjörlega enda var Buffalo Bill mjög vel sköpuð persóna. Það er ekki hægt að segja það sama um persónurnar í Hannibal enda er ekki nóg að láta persónu vera með ógeðslegt andlit til þess að hún verði áhugaverð.


Augljóst er að þessi mynd var aðeins gerð í þeim eina tilgangi að græða meiri pening á vinsældum The Silence of the Lambs og nú er búið að blóðmjólka þær enn meira með því að gefa út tvær myndir í viðbót; Red Dragon og Hannibal Rising. Red Dragon er reyndar mjög góð og klárlega sú besta af þessum þremur myndum. Fyrsta myndin um Hannibal, Manhunter, kom hins vegar út árið 1986 og er leikstýrð af Michael Mann - ég á enn eftir að sjá hana. Red Dragon var endurgerð á þessari mynd.

Í heildina litið er Hannibal algjörlega óþarft framhald af frábærri kvikmynd og gerir það einungis að verkum að meistarar á borð við Hannibal Lecter eru ekki eins miklir meistarar og þeir eiga skilið að vera í minningunni. Það hefði þurft að leggja miklu meiri vinnu í þessa mynd ef það það átti að verða eitthvað almennilegt úr henni en kannski er framleiðendunum bara drullusama enda skilaði myndin sér vel fyrir þá í budgeti.

***