Tuesday, April 15, 2008

Brúðguminn

Ég skellti mér á Brúðgumann í bíó fyrir löngu síðan en drullaðist aldrei til að blogga um hana fyrr en nú. Svo týndi ég líka miðanum þannig að það kostar mig sennilega þrjár fjarvistir af hafa ekki bloggað um myndina fyrr en núna. Myndin er byggð á leikritinu Ívanov eftir Anton Chekhov sem var sýnt í leikhúsum á sama tíma og myndin var í bíó en Baltasar Kormákur leikstýrði báðum verkunum.

Brúðguminn fjallar um Jón sem er miðaldra háskólakennari og hyggst ganga í það heilaga með Önnu sem er ungt stúlka. Brúðkaupið á að eiga sér stað á Flatey í Breiðafirði en þaðan er Anna ættuð og foreldrar hennar reka hótel á eyjunni. Mamma Önnu, Sísí, er peningagráðug gribba sem líkar skelfilega illa við Jón en pabba hennar er frekar chillaður yfir þessu öllu. Samhliða þessari sögu fáum við að fylgjast með annarri sögu sem gerðist þegar Jón ætlaði að gifta sig áður en hann hélt fram hjá með Önnu og hóf ástarsamband með henni.

Það besta við Brúðgumann er frábær persónusköpun. Sísí leikin af Ólafíu Hrönn Gauksdóttur , Sjonni (vinur Jóns) leikinn af Ólafi Darra Ólafsson og presturinn leikinn af Ólafi Egilssyni eru allar drepfyndnar persónur sem halda húmornum í myndinni uppi allan tímann. Flestar aukapersónur myndarinnar eru einnig mjög skrautlegar enda eru Anna og Jón of óáhugaverð til að halda myndinni uppi.

Samanborið við leikritið Ívanov kemur bersýnilega í ljós að sagan sæmir sér mun betur í leikhúsinu enda var hún upphaflega skrifuð sem leikrit. Kvikmyndir byggðar á leikritum hafa svo sem sjaldan orðið að epískum meistaraverkum en myndir á broð við Ran e. Kurosawa (sem er byggð á Lér Konungi) sýna að það er svo sem alveg gerlegt.

Brúðguminn er frekar týpísk íslensk gamanmynd. Hún er ágætis afþreying sem skilur lítið eftir sig og inniheldur Hilmi Snæ á typpinu. Ég hafði gaman að myndinni en það að ég skuli ekki hafa bloggað um hana fyrr en mörgum mánuðum eftir að ég sá hana segir ýmislegt um gæði myndarinnar. Söguþráðurinn er nokkuð óspennandi en skemmtilegar persónur og drepfyndinn atriði halda myndinni gangandi. Brúðguminn er mynd sem er peningasóun að fara á í bíó en þetta er ágætis mynd til að leigja á rólegu kvöldi.

** 1/2