Wednesday, April 16, 2008

Kvikmyndafræði 2007-08

Jæja þá er lokaprófið í kvikmyndafræðum búið og því vel við hæfi að fjalla aðeins um veturinn.

1. Blogg
Það var ljóst frá upphafi að bloggfaktorinn yrði mikilvægur hluti af faginu og snemma myndaðist mikil stemmning í bloggheimum þar sem allir kappkostuðu við að ná 30 haustannarfærslunum sínum. Þetta var skemmtilegur hluti af námskeiðinu enda fylgdi honum mikið frelsi; menn máttu blogga um hvað sem þeir vildu hvenær sem þeir vildu. Reyndar var ætlast til þess að menn blogguðu um ákveðanar skyldumyndir en seinna kom fram að það væri óþarfi nema maður hefði ekki mætt í tímann þegar myndin var sýnd og vildi fá skrópið sitt fellt niður. Í upphafi sagði Siggi Palli að nóg væri að skrifa 30 færslur á hverri önn sem væru aðeins 10 línur hver. Það kom strax í ljós að þetta var allt of lár standard enda byrjaði Bóbó strax að bomba niður 1000+ orða færslum - aðrir fylgdu svo í kjölfarið. Það sást svo þegar gefnar voru einkunnir fyrir haustannarbloggin að einu verðlaunin sem menn fengu fyrir þennan auka metnað voru plúsar sem bættust við tíuna þeirra. Það var svo sem ekkert hægt að refsa öðrum fyrir það að aðrir væru metnaðarfyllri en ætlast var til og því var tekið í notkun þetta snilldarkerfi á vorönn. Ég er mjög sáttur með það því nú uppskera menn nákvæmlega eins og þeir sá. Þannig á það að sjálfsögðu að vera auk þess sem þetta er mun skilvirkara en þó meiri vinna fyrir kennarann. Ég hvet Sigga Palla samt til að halda sig við nýja kerfið á næsta ári ef hann ætlar aftur að kenna kvikmyndafræði næsta vetur.

2. Bíósyníngar
Bíósýningar í vetur voru með tvennum hætti; annars vegar voru hópferðir á íslenskar myndir í bíó og hins vegar valdi Siggi Palli myndir sem við horfðum á eftir skóla á mánudögum/miðvikudögum (fyrir utan tvö skipti; einu sinni fékk lýðræðið að ráða og einu sinni fékk Bjarki Ómarsson að ráða). Tímasetningin á þessum bíósýningum verður að teljast stór galli þar sem þær voru utan stundatöflu. Það getur oft komið fyrir að menn eru að vinna eftir skóla eða að sinna öðrum verkefnum. Ég missti t.d. af nokkrum myndum á vorönn vegna stuttmyndagerðar, prófa í öðrum fögum og Morfís æfinga og sumar þessara mynda hef ég ekki enn náð að sjá, t.d. Man Bites Dog, Suspiria og The Taste of Tea. Flestar myndirnar sem ég sá voru hins vegar mjög góðar þrátt fyrir undantekningar á borð við Funny Games. Svo eru Notorious og 8 1/2 ekki skemmtilegustu myndir í heimi en ég skil af hverju þær voru sýndar vegna áherslunnar sem er lögð á þær í Film Directing Fundamentals. Það er samt eigilega möst að koma þessum bíósýningum einhvern veginn fyrir á stundaskrá. Það getur ekki verið það erfitt að sannfæra Yngva um að hafa þrefaldan tíma einhvern morguninn og síðan einn tvöfaldan og einn einfaldan. Það yrði námskeiðinu a.m.k. mjög til hagsbóta ef þessu yrði komið í kring.

3. Riff kvikmyndahátíð
Riff kvikmyndahátíðin var semí sköll fyrir mig. Ég hef ekkert út á það að setja að hún hafi verið liður í námsekiðinu en það hefði mátt vara okkur við því að sumar myndirnar gætu orðið skelfilega lélegar og jafnvel sýndar í ömurlegum gæðum. Ég byrjaði t.d. á því að fara á myndinu Hiena sem er bæði vandræðalega léleg mynd og var sýnd í fráleitum gæðum. Síðan fór ég á danska mynd sem ég man ekki hvað heitir og hún var þó skömminni skárri. Þau mistök að velja þessar myndir verða þó að skrifast algjörlega á sjálfan mig enda renndi ég nokkuð blint í sjóinn með að fara á þær. Ég hefði átt að vinna mína heimildavinnu áður þ.e.as. hvað varðar gæði myndanna sjálfra ekki MovieCam útgáfuna sem var sýnd í Regnboganum. Ef ég man rétt voru engir tímar þegar Riff hátíðin var í gangi og fannst mér hún góð leið til að brjóta námskeiðið aðeins upp. Kennarinn mætti samt mæla með ákveðnum myndum og vara við öðrum ef hann þekkir eitthvað til.

4. Stuttmynd á haustönn + klippiverkefni
Stuttmyndin á haustönn var skemmtilegt tækifæri fyrir okkur til að fá að kynnast myndavélinni og Triple-Take tækninni. Vissulega var erfitt að gera bíómynd nánast án allrar eftirvinnslu en þetta var mikilvægt að við hefðum prófa að handfjatla myndavélina fyrir seinni stuttmyndina okkar og þetta var sniðug leið til þess. Útkoman á þessum myndum varð misjöfn en flestir kröfsuðu sig vel út úr þessu. Sérstaklega þótti mér Efterfölgeren góð mynd. Það var síðan stórsniðugt að mörgu leyti að láta klippiverkefnið vera þess eðlis að við fengum að klippa þessa mynd mörgum mánuðum eftir að við gerðum hana. Allir hópar pirruðu sig sennilega yfir einhverjum smáatriðum sem voru í myndinni upphaflega en nú fengum við tækifæri til að laga þau. Það var hins vegar mismikið sem þurfti að laga til eftir hópum og verkefnið var því ekki jafnviðamikið fyrir alla. Þar að auki vantaði bút úr okkar mynd inn í klippiforritið þannig að hún kom frekar kjánlega út í einu atriðinu.


5. Leikstjóraheimsóknir
Það var gaman að fá leikstjóra þeirra íslensku mynda sem við höfðum séð í heimsókn enda sköpuðust oft heitar umræður. Leiðinlegasta heimsóknin var þó klárlega þegar Guðný Halldórsdóttir kom og drullaði síðan yfir það seinna opinberlega að engin stelpa hefði verið í tímanum. Femininstinn Guðný hefur sennilega lítið hugsað út í það, heimsku sinnar vegna, að fagið væri valfrjálst og ástæðan fyrir því að enginn stelpa væri þarna var sú að engin stelpa hafði áhuga á því. Ég legg til að Guðný verði ekki fengin í heimsókn aftur. Það var hins vegar áhugavert að fá Björn eldri og Gunnar leikstjóra Astrópíu í heimsókn og það hefði verið gaman ef Baltasar hefði komist líka. Þetta er klárlega liður í námskeiðinu sem ætti að halda áfram með.

6. Seinni stuttmyndin
Ég er nú þegar búinn að senda frá mér tvær færslur á stuttum tíma um þessa seinni stuttmynd þannig að ég veit ekki hvað ég þarf að segja mikið um hana að svo stöddu. Mér fannst allavega mjög gaman að fá tækifæri til að gera stuttmynd en miðað við metnað og vinnu sem ég og félagar mínir lögðum í myndina finnst mér við ekki hafa uppskorið eins og við sáðum. Nú er ég ekki að segja að 9 sé slæm einkunn en ég er ósáttur með okkur einkunn í samanburði við aðrar mun lélegri myndir sem var augljóslega lögð mun minni vinna í.

7. Lokaprófið
Það verður að segjast alveg eins og er að þetta lokapróf er svartur blettur á námskeiðinu. Siggi Palli hefur varið prófið með því að segja að Yngvi banni próflausa áfanga en samt hefur tölvufræði í 4. bekk (sem er stúdentsfag) verið próflaus áfangi síðustu tvö ár og byggist lokaeinkunnin því á símati. Það er því greinilega búið að setja fordæmi fyrir próflausum áföngum og eiitthvað fag ætti að vera próflaust þá er það kvikmyndafræði. Einkunninn á prófinu er engan veginn í samræmi við þá vinnu sem við höfum lagt í fagið í vetur og í raun er það hlægilegt að hún skuli gilda til jafns við námseinkunnina. Prófið var reyndar mjög sanngjarnt að öllu leyti nema því hvað það var hræðilega langt. Það hefði verið fínt ef þetta hefði verið 3 tímar en ég vona að Siggi Palli taki mið af því hversu langt prófið er þegar hann gefur einkunn fyrir það (og þá er ég sérstaklega að tala um 40% spurninguna).

8. Annað
Í heildina litið er ég mjög sáttur með fagið eins og það var í ár. Tímarnir voru vel nýttir, efnið var við skemmtilegt, það var rétt ákvörðun að láta okkur ekki lesa einhverja doðranta um kvikmyndasöguna og það var gaman að fá að kynnast kvikmyndagerð af eigin reynslu. Það eina sem ég hef út á þetta að setja (fyrir utan athyglisverða einkunnagjöf fyrir sinni stuttmyndina) er eins og áður hefur komið fram: tími á bíósýningum og lokaprófið. Ég vona fyrir hönd þeirra sem munu leggja stund á þetta fag næsta vetur og það verði a.m.k. reynt að koma vitinu fyrir Yngva í þessum efnum. Ég efa stórlega að það sé svona rosalega erfitt.

Annars hef ég ekkert annað að segja nema takk fyrir veturinn og takk fyrir mig!

Ari Guðjónsson

1 comment:

Siggi Palli said...

Fínar athugasemdir og vel útpældar. 9 stig.
Þá endarðu með 89 stig.

#2 - ég er búinn að ræða þetta við Yngva og hann var bjartsýnn á að við gætum komið bíótímum inn í stundaskrá. Ég held samt að ég myndi frekar vilja hafa þessa tíma seinnipartinn, t.d. frá 14-16, svona svo maður geti sýnt langa mynd ef manni langar rosalega mikið til þess.

#3 - Skömmu fyrir RIFF birti ég færslu með lista og stutta umfjöllun um myndirnar sem mér leist best á.

#7 - Auðvitað verður tekið tillit til óhoflegrar lengdarinnar við einkunnagjöf, þó það sé auðveldara sagt en gert. Ég mun svo bera það undir Yngva hvort ekki sé hægt að losna við þetta próf, þó ég sé ekkert rosalega bjartsýnn.

Takk fyrir veturinn.