Wednesday, April 16, 2008

Moulin Rouge

Það er ekki oft sem maður sér góðar söngva- eða dansamyndir en Moulin Rouge er stór undantekning þar á. Myndin kom út árið 2001 og er leikstýrt af Baz Luhrman sem gerði einnig Romeo + Juliet frá árinu 1996. Í aðalhlutverkum skartar myndin stórstjörnunum Ewan McGregor og Nicole Kidman.

Myndin fjallar um fátæka rithöfundinn Christian (Ewan McGregor) og hefðarvændiskonuna Satine (Nicole Kidman) sem verða ástfangin af hvort öðru. Satone vinnur á Rauðu myllunni (Moulin Rouge) og er neydd til þess að eiga í ástarsambandi við fursta nokkurn af eiganda Myllunnar svo hægt sé að fjármagna sýningu sem sýnd er á staðnum. Satine leikur aðalhlutverkið í sýningunni en Christian er fenginn til að skrifa handritið. Þau eiga í leynilegu ástarsambandi en furstinn er alltaf yfirvofandi og á endanum mun Satine þurfa að eyða nótt með honum.

Moulin Rouge er virkilega flott mynd. Öll umgjörðin er rosalega töff, tónlistin er góð og dans-og söngatriðin eru stórskemmtileg. Einnig er persónusköpunin mjög góð en flestar aukapersónurnar eru mjög ýktar á ýmsan hátt og Kidman og McGregor eiga leiksigur í myndinni. Handritið er frábært og sjaldan hef ég upplifað endi á bíómynd á jafndramatískan og sorglegan hátt.

Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlaun sem besta mynd ársins 2001 en laut í lægra haldi fyrir A Beautiful Mind. Með fullri virðingu fyrir A Beautiful Mins þá er hún mun lakari mynd og því verður þessi Óskarsverðlaunaafhending að teljast rán á hábjörtum degi. Sérstaklega í ljósi þess að mun verri söngvamynd, Chicago, voru veitt Óskarsverðlaun sem besta mynd ári seinna.


Moulin Rouge kemst í hóp með allra bestu myndum sem ég hef séð. Sagan heldur manni í heljargreipum allan tímann, myndin er vel gerð að öllu leyti og söngatriðin eru ekki asnaleg eins og oft vill verða í svona myndum. Sérstaklega er atriðið í fílabeinsturningum skemmtileg en þar er fjölmörgum lögum blandað saman í eitt. Absúrdisminn í myndinni virkar líka mjög vel og gerir það að verkum að sagan er ekki bara hrá ástarsaga heldur svo miklu miklu meira.

*****

2 comments:

Ingólfur said...

Ógeðslega góð mynd. Tónlistin í henni er algjör snilld, búinn að hlusta á hana oft í gegnum tíðina en ekki horft nægilega oft á myndina sjálfa. Þarf að skella henni aftur í. Fokking hata Chicago fyrir að hafa unnið óskarinn líka, það var ömurleg mynd.

Siggi Palli said...

Flott færsla. 6½ stig.