Monday, November 26, 2007

Rashomon

Kvikmyndin Rashomon kom út árið 1951 og var byggð á smásögunni “In a Grove” eftir Ryonsuke Akutagawa frá 1921. Akutagawa hafði áður skrifað smásögu með nafninu Rashomon en hún tengist kvikmyndinni ekki að öðru leyti nema að nafn hennar er þaðan komið.

Það má segja að Rashomon sé sú kvikmynd sem kom Akira Kurosawa virkilega á kortið sem heimsklassa leikstjóri. Myndin vann Gullljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og fékk einnig Óskarsverðlaun sem besta erlenda mynd og vann Kurosawa þar sinn fyrsta Óskar. Rashomon hefur haft áhrif á fjölmargar kvikmyndir en þekktust þeirra er sennilega The Usual Suspects frá árinu 1995.


Myndin fjallar um morð á samúraia sem er séð frá fjórum mismunandi sjónarhornum. Enginn þeirra fjögurra sem tjáir sig um morðið hefur sömu að segja og samúrainn sjálfur, sem haft er samband við í gegnum miðil, segir að um sjálfsmorð sé að ræða. Eiginkona hans segir að hún sé valdur að morðinu en trésmiður nokkur og óþokkinn Tajomaru sammælast um það að sá síðarnefndi sé morðinginn. Sögurnar eru mistrúlegar og er áhorfandanum látið eftir að dæma um hvað gerðist í raun og veru.


Það sem er mest pirrandi við þessa mynd (sem og aðrar Kurosawa myndir) eru ýktir leiktilburðir. Af myndum Kurosawa að dæma geta japanskir leikarar hvorki hlegið né grátið án þess að gjörsamlega æra áhorfendur með hávaða og kjánalegum tilburðum. Aftur á móti er söguþráðurinn skemmtilegur og myndin er mjög vel gerð að flestu leyti. Hápunktur myndarinnar á sér svo stað í dramatískum endi þegar ein af persónum myndarinnar gerir upp tilfinningar sínar.


Sennilega finnst mörgum þessi mynd vera hundleiðinleg en ég hafði gaman að henni þó að sagan sé hæg á köflum. Aftur á móti er myndin mjög stutt, innan við 90 mínútur, svo það er nú ekki mikið mál að þrauka í gegnum þetta. En Rashomon er klárlega næstbesta Kurosawa mynd sem ég hef séð hingað til á eftir hinni ógleymanlegu Seven Samurai.


***1/2

1 comment:

Siggi Palli said...

Ágætispunktur varðandi leikinn en ég held að ýktur leikurinn sé sambland af japanskri leikhefð og svo efniviðnum. Japanir ætlast kannski ekki til þess að sjá raunsæjan leik í samúræja-myndum. Það er orðið langt síðan ég sá Ikiru, sem er mynd eftir Kurosawa sem gerist í samtímanum, en það væri áhugavert að bera saman leikinn í henni annars vegar og hins vegar í samúræjamyndunum.
En Japanir kunnu svo sannarlega að leika á þessum tíma. Sönnun þess má finna í myndum Ozu, t.d. Tokyo Story.