Ég var nokkuð spenntur fyrir því að sjá þessa mynd enda hafði ég ekki séð eina einustu Fellini mynd en heyrt svo margt gott um þennan meinta snilling. Einnig hafði ég heyrt að 8 1/2 væri allra besta Fellini myndin enda var hún margverðlaunuð á sínum tíma og hlaut m.a. Óskarsverðlaun sem besta erlenda mynd. Þegar ég horfði svo loksins á þess mynd varð ég fyrir verulegum vonbrigðum.
Ég vil þó byrja á að taka fram að mörg atriði í þessari mynd eru alveg ótrúlega flott og það er greinilegt að Fellini er mikill listamaður. Í þessu samhengi má t.d. nefna upphafsatriðið og uppgjör Guido við konurnar í lífi sínu. Myndavélinni er beitt á snilldarlegan hátt og hvert einasta skot er augljóslega útpælt. En þó að kvikmyndin 8 1/2 sé listaverk út af fyrir sig þá hefur hún lítið sem ekkert afþreyingargildi. Áhorfandinn er lítið með á nótunum enda er sífellt verið að skipta úr raunveruleikanum yfir í hugarheim Guidos og myndin er hreinlega hæg og leiðinleg. Það versta af öllu er hins vegar helvítis dubbið. Hvaða hálfvita dettur í hug að láta leikarana segja "Einn, tveir, þrír - einn, tveir, þrír" þegar þeir eru að tala og dubba síðan yfir það? Þetta fór rosalega í taugarnar á mér þegar ég horfði á myndina enda er engan veginn hægt að detta inn í mynd þar sem talið er sett inn eftir á.
En þá situr eftir spurngin: Af hverju var Fellini að gera þessa mynd? Augljóslega er hún ekki hugsuð sem afþreyingarefni enda hafa mjög fáir gaman að því að horfa á myndina og enn færri geta dottið inn í hana. En auðvitað var Fellini drullusama um það vegna þess að hann vildi bara að myndin ynni til verðlauna (sem hún gerði) og að kvikmyndanördar mundu brunda yfir einstökum atriðum í myndinni í framtíðinni (sem þeir gera) og að myndin innihéldi þetta eina snilldaratriði sem kæmi henni á lista yfir bestu myndir allra tíma (sem gekk eftir). Já, að hugsa sér að þessi mynd sé á lista yfir 102 merkilegustu myndir allra tíma þó að hún sé svona hundleiðinleg. Það samt skiptir engu máli sbr. ummæli hæstvirts Sigurðar Páls Guðbjartssonar frá 25. nóvember 2007:
"Þessar myndir [á 102-mynda listanum] eru oft taldar meistaraverk út af einhverjum ákveðnum listrænum/verklegum þáttum eins og myndatöku eða út af 2-3 rosalegum byltingarkenndum senum, þær eru ekkert endilega alveg frábært bíó alla leið í gegn."
Þar höfum við það. Það skiptir ekki máli þó að myndir Fellinis séu hundleiðinlegar þá má samt setja hann í hóp með bestu leikstjórum allra tíma, skíra flugvelli eftir honum og hreinlega dýrka hann sem Guð almáttugan. Ég kýs hins vegar frekar að upphefja myndir sem eru ekki bara gerðar til að vinna til verðlauna eða fara á einhverja lista. Ef þú ert sammála, lesandi góður, þá skaltu ekki sjá 8 1/2.
**
Wednesday, November 28, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Snilld! Meistari! Snilld!
Post a Comment