Saturday, September 22, 2007

Opinberun Hannesar II - Stuttmyndagerð


Þann 10. september sl. fékk ég smjörþefinn af gerð kvikmynda ásamt félögum mínum úr Ólympíuliðinu í skítkasti. Það fyrsta sem við gerðum var að skrifa handrit (eða drög að því). Arnar Már Ólafsson fékk þá frábæru hugmynd að gera kvikmynd um mormónatrúboða og var það svo sannarlega e-ð til að vinna með. Eftir handritaskrifin skipuðum við í hlutverk. Ákveðið var að ég og Ingólfur Halldórsson lékum mormónana tvo, Arnar Már Ólafsson léki fórnarlamb mormónanna og Árni Þór Árnason léki gæjann úr Vottum Jehóva.

Áður en tökur hófust reyndum við að fá tilfinningu fyrir myndavélinni og læra á það sem við þyrftum að nota. Það tók skamman tíma og því var haldið niður í 10-11 á Hjarðarhaga þar sem fyrsta skotið var tekið. Þar ætlaði afgreiðslumaðurinn fyrst að banna okkur að taka upp skotið en eftir nokkur símtöl við verslunar- og framkvæmdastjóra þar sem við lýstum atriðinu sem við hygðumst taka upp ítarlega fengum við leyfið.

Tökurnar gengu ágætlega en við sáum fljótt að myndin yrði skelfilega klippt þar sem við fengum eingöngu að nota myndavélina til þess. Einnig komumst við að þeim mistökum þegar við vorum hálfnaðir með tökur að við hefðum tekið alla myndina upp með hljóðið still á 32k. Það eina sem var tekið upp í 48k var byrjunaratriðið sem við ætluðum að audio-döbba en síðan höfum við einhverra hluta vegna breytt yfir í 32k. Þetta eru mistök sem við munum læra af en við tókum þá ákvörðun að breyta ekki aftur yfir í 48k til að koma í veg fyrir ósamræmi. Önnur mistök sem við gerðum (og áttuðum okkur ekki á fyrr en horft var á myndina seinna meir) var að sum atriðin voru illa lýst. Þetta er annað atriði sem við munum passa upp á í komandi framtíð.

Þegar tökur voru búnar hófumst við handa við að audio-döbba tvö atriði. Fyrra atriðið sem við döbbuðum var tekið upp í 48k og gekk það mjög vel. Seinna atriðið var tekið upp í 32k þannig að lagið átti að koma yfir hljóðið í myndinni. Við sáum strax að það þurfti að breyta öðrum aðferðum til að audio-döbba það og tók það okkur rúman hálftíma að komast að réttu aðferðinni. Blessunarlega tókst það hins vegar á endanum og þá loksins var myndin fullkláruð.

Myndin varð á endanum rúmar sjö mínútur. Í heildina séð er ég nokkuð sáttur við útkomuna þrátt fyrir ýmis byrjendamistök á köflum. Ég hlakka hins vegar til að fá annað tækifæri til að gera mynd sem við getum lagt meiri vinnu í og klippt í tölvu. Nú þegar erum við Ólympíuliðsmennirnir komnir með hugmyndir að handritum fyrir næstu myndir og það er varla hægt að segja annað en að við iðum í skinninu yfir að fá að hrinda þeim í framkvæmd.

No comments: