Friday, September 7, 2007

Astrópía

Þegar ég skellti mér á Astrópíu um daginn get ég ekki sagt að væntingarnar hafi verið miklar. Þetta var bara enn ein low-budget íslensk kvikmynd en í þetta skiptið með mörgum óreyndum leikurum í stærstu hlutverkunum og leikstýrt af manni sem ég hafði aldrei heyrt um. Skelfileg blanda.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að það sé óþarft að rekja söguþráð myndarinnar hér þannig að við skulum vinda okkur beint í sleggjudómana. Leikararnir komu margir mjög á óvart og þá sérstaklega Snorri Engilbertsson sem lék Dag. Ragnhildur Steinunn stóð sig líka ágætlega en missti svoldið dampinn í rómantísku atriðunum. Sennilega er ástæðan sú að hún hafi vitað það vel hversu leiðileg þessi ástarsaga væri og sýndi hug sinn í verki með lélegum leik. Davíð Þór Jónsson var áberandi lélegastur af aðalleikurunum en hann lék einmitt óþokka myndarinnar. Mér finnst alltaf mikilvægt að vondi gæinn í bíómyndum sé vel leikinn til þess að hann verði hreint illmenni og þar með eftirminnileg persóna. Maður var svo sem ekki að búast við neinum Hannibal Lecter eða Darth Vader en Jolli (persónan sem Davíð Þór lék) nálgast alveg botninn hvað þetta varðar.

Söguþráður myndarinnar er þokkalegur fyrir utan rómantísku hliðarsöguna. Það að heimsk gella byrji að vinna í nördabúð er alveg áhugaverð pæling en að láta hana svo verða ástfangna af einum nördanum er fyrirsjáanlegt, ófrumlegt og leiðilegt. Myndin spilar einnig mikið út á það að kreista fram hlátur hjá áhorfandanum og tekst það misvel. Pétur Jóhann og Sverrir Þór fóru þar fremstir í flokki en þeir eru nánast djókandi út alla myndina. Ég ætla ekki að neita því að ég hafi skellt upp úr yfir nokkrum bröndurunum en sumir þeirra hittu alls ekki í mark. Í heildina séð er Astrópía ekki ólík flestum íslenskum bíómyndum; ágætis afþreying en skilur ekki neitt eftir sig.

**/*****

No comments: