Ég gróf þessa heimildamynd upp í forvitni minni eftir að hafa horft á Birth of a Nation. Í myndinni er saga Ku Klux Klan rakin frá lokum Þrælastríðsins og til dagsins í dag.
Í byrjun myndarinnar verður áhorfandinn vitni að samkomu klansins nú á dögum. Þar er allt morandi í tattúveruðum og helskeggjuðum nýnasistum - þessar týpur sem maður vill ekki mæta í dimmu húsasundi. En það sem kom á óvart var að þarna eru líka heilu fjölskyldurnar, venjulegt fólk sem fer saman út úr bænum yfir helgi á Ku Klux Klan samkomu. Þarna eru grillaðar pylsur og fólk spjallar saman en þegar líður á kvöldið fara allir í búningana sína og verða vitni að þeim atburði sem er einkennandi fyrir Ku Klux Klan; hinn brennandi kross.
Ku Klux Klan starfaði upphaflega á árunum 1866-67, þ.e eftir lok Þrælastríðsins. Þrátt fyrir að samtökin hafi gerst sek um fjölmörg kaldrifjuð morð á svertingjum eiga þessi samtök lítið skylt með því Ku Klux Klan sem var endurreist árið 1915, sama ár og kvikmyndin The Birth of a Nation kom út. Það var meþódistinn William J. Simmons sem á heiðurinn að endurreisnin samtakanna.
"[William Joseph] Simmons claimed the idea of starting a new clan came to him in a vision. The birth of the group was simply a matter of timing. The moment arrived with the release of one of the greatest cinematic achievement of it's time. Just days following the Stone Mountain crossburning The Birth of a Nation was released in the south. D.W. Griffith's film played a sold out theater. The filmmaking was flawless, the history was not."
Upp úr þessu varð til það skrímsli sem allir hugsa um þegar minnst er á Ku Klux Klan. Samtökin voru á sínum tíma gríðarlega stór og innihéldu marga stjórnmálamenn og aðra hátt setta aðila úr þjóðfélaginu. Heilmargir voru myrtir, aðallega svertingjar en einnig þeir sem kallaðir voru "nigger-lovers". Viðbjóðurinn náði svo hápunkti þegar fjórar ungar stúlkur voru sprengdar í tætlur á leið í sunnudagaskólann. Það var ekki fyrr en loks á 7. áratugnum að rödd hinna kúguðu blökkumanna fór að heyrast af krafti með menn eins og Martin Luther King í farabroddi. Eftir það hefur Ku Klux Klan farið minnkandi er núna, eins og áður kom fram, einungis skugginn af sjálfu sér.
Ég hef oftast mjög gaman af heimildamyndum um áhugaverð og söguleg efni en þessi þótti mér alveg sérstaklega góð. Það hefur greinilega mikið verið lagt í myndina, rannsóknarvinnan er vel unnin og sagan er sögð á mjög dramtískan, en jafnframt áhrifaríkan hátt. Til að kóróna þetta voru svo sýndar myndir af öllum fórnarlömbum sem minnst var á - mjög tilfinningaþrungið. Þeir sem hafa gaman að sögulegum heimildamyndum verða ekki sviknir af þessari.