Thursday, November 29, 2007
Topp 10 listinn (8-10)
Eins og kom fram í nýlegri bloggfærslu um þessa mynd þá er þetta besta Billy Wilder myndin sem ég hef séð og mér finnst sá meistari eiga skilið að hafa mynd á listanum. The lost Weekend er rosalega góð og áhrifamikil mynd þrátt fyrir að hún sé nokkuð mínímalisk þar sem hún gerist einungis á fáeinum dögum og við fylgjumst með sömu persónunni allan tímann. En það er kostur frekar en ókostur enda er sagan rosalega vel skrifuð og Billy Wilder kemur henni einstaklega vel frá sér. Stórleikur Ray Milland í aðalhlutverkinu setur svo punktinn yfir i-ið og gerir myndina að meistaraverki.
9. Ben-Hur
Sennilega er Ben-Hur ein allra epískasta mynd kvikmyndasögunnar. Þó að myndin sé þrír og hálfur tími að lengd þá verður hún aldrei langdregin enda er alltaf eitthvað gerast og myndin er stútfull af eftirminnilegum atriðum. Þar ber helst að nefna kappreiðarnar sem er nokkurs konar uppgjör milli góðu aðalpersónunnar og vonda gaursins - útkoman er tær snilld. Einnig er það alveg rosalegt þegar Jesús kristur birtist fyrst í myndinni og veitir Judah Ben-Hur hjálparhönd þegar hann er máttvana og þjáður eftir að hafa verið píndur tímunum saman. Charlton Heston fer á kostum í titilhlutverkinu og það er engin tilviljun að þessi mynd fékk 11 Óskarsverðlaun á sínum tíma.
8. Se7en
Persónusköpunin í þessari ræmu er hreint með ólíkindum og er vondi kallinn, John Doe, sennilega einn áhugaverðasti persónuleiki sem ég hef séð í kvikmynd. Klækir hans og snilligáfa í bland við geðveiki skapa dularfulla stemmningu í myndinni sem breytist svo í spennu sem magnast upp þangað til hún nær hámarki í rosalegu lokaatriði. Það er svo margt geðveikt við þessa mynd, t.d. er öll lögreglurannsóknin í heild mjög áhugaverð og atriðið þar sem John Doe lætur sjá sig í fyrsta skipti er ekkert smá nett. Morgan Freeman og Brad Pitt eru góðir í sínum hlutverkum en meistari Kevin Spacey á hreinilega þessa mynd þrátt fyrir að hann sé ekki beint í aðalhlutverki.
Wednesday, November 28, 2007
Some Like It Hot
Myndin fjallar um tvo hljóðfæraleikara sem verða vitni að fjöldamorðum bandarísku mafíunnar og í kjölfarið gerast þeir klæðskiptingar og leggja á flótta til Flórída með kvennahljómsveit. Þar upphefst mikill farsi og þá sérstaklega eftir að annar þeirra verður ástfanginn af einum samspilara sínum og hinn er hundeltur af auðmanni sem getur ekki hamið ást sína á honum. Þegar mafíúósarnir koma svo aftur inn í myndina verður upp fótur og fit sem næst ekki að binda enda á nema með miklu blóðbaði. Svo er það alltaf á mörkunum hvort klæðskiptingarnir nái að halda upp lyginni sinni til lengdar og lenda þeir oft í vandræðalegum aðstæðum eins og sjá má á eftirfarandi tilvitnun:
Sweet Sue: "Didn't you girls go to a conservatory?"
Jerry (as Daphne): "Yes, for a whole year."
Sweet Sue: "I thought you said it was three years."
Joe: "We got time off...for good behaviour."
Það besta við myndina, að öðrum leikurum ólöstuðum, var glæstur leiksigur Jack Lemmon. Hann gat svo sannarlega leikið fleira en gamla kalla sem gera ekki annað en að rífast við Walter Mathau enda fékk hann Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína í þessari mynd. Eitt fyndnasta atriði myndarinnar er þegar hann kemur sauðdrukinn og trúlofaður upp á hótelherbergi til sín eftir að hafa dansað tangó alla nóttina með auðkýfingnum sem áður var nefndur. Endirinn á myndinni er líka drepfyndinn og sennilega einn sá allra fyndnasti sem fyrir finnst í sögu kvikmyndanna. Í heildina litið er Smoe Like It Hot ekki bara mynd sem hægt er að hafa gaman að heldur er hún líka stórgóð og vel gerð.
****
8 1/2
Ég vil þó byrja á að taka fram að mörg atriði í þessari mynd eru alveg ótrúlega flott og það er greinilegt að Fellini er mikill listamaður. Í þessu samhengi má t.d. nefna upphafsatriðið og uppgjör Guido við konurnar í lífi sínu. Myndavélinni er beitt á snilldarlegan hátt og hvert einasta skot er augljóslega útpælt. En þó að kvikmyndin 8 1/2 sé listaverk út af fyrir sig þá hefur hún lítið sem ekkert afþreyingargildi. Áhorfandinn er lítið með á nótunum enda er sífellt verið að skipta úr raunveruleikanum yfir í hugarheim Guidos og myndin er hreinlega hæg og leiðinleg. Það versta af öllu er hins vegar helvítis dubbið. Hvaða hálfvita dettur í hug að láta leikarana segja "Einn, tveir, þrír - einn, tveir, þrír" þegar þeir eru að tala og dubba síðan yfir það? Þetta fór rosalega í taugarnar á mér þegar ég horfði á myndina enda er engan veginn hægt að detta inn í mynd þar sem talið er sett inn eftir á.
En þá situr eftir spurngin: Af hverju var Fellini að gera þessa mynd? Augljóslega er hún ekki hugsuð sem afþreyingarefni enda hafa mjög fáir gaman að því að horfa á myndina og enn færri geta dottið inn í hana. En auðvitað var Fellini drullusama um það vegna þess að hann vildi bara að myndin ynni til verðlauna (sem hún gerði) og að kvikmyndanördar mundu brunda yfir einstökum atriðum í myndinni í framtíðinni (sem þeir gera) og að myndin innihéldi þetta eina snilldaratriði sem kæmi henni á lista yfir bestu myndir allra tíma (sem gekk eftir). Já, að hugsa sér að þessi mynd sé á lista yfir 102 merkilegustu myndir allra tíma þó að hún sé svona hundleiðinleg. Það samt skiptir engu máli sbr. ummæli hæstvirts Sigurðar Páls Guðbjartssonar frá 25. nóvember 2007:
"Þessar myndir [á 102-mynda listanum] eru oft taldar meistaraverk út af einhverjum ákveðnum listrænum/verklegum þáttum eins og myndatöku eða út af 2-3 rosalegum byltingarkenndum senum, þær eru ekkert endilega alveg frábært bíó alla leið í gegn."
Þar höfum við það. Það skiptir ekki máli þó að myndir Fellinis séu hundleiðinlegar þá má samt setja hann í hóp með bestu leikstjórum allra tíma, skíra flugvelli eftir honum og hreinlega dýrka hann sem Guð almáttugan. Ég kýs hins vegar frekar að upphefja myndir sem eru ekki bara gerðar til að vinna til verðlauna eða fara á einhverja lista. Ef þú ert sammála, lesandi góður, þá skaltu ekki sjá 8 1/2.
**
Tuesday, November 27, 2007
The Lost Weekend
Myndin segir frá lífi mislukkaðs rithöfunds sem er fastur í viðjum áfengisfíknar. Við fáum að sjá fimm daga úr lífi hans þar sem fíknin magnast upp með hverjum deginum og hefur sífellt meiri og verri áhrif á samband hans við sína nánustu. Á endanum er hann orðinn svo illa leikinn að er farinnað missa tengslin við raunveruleikann og lætur ekkert stoppa sig við það að útvega sér áfengi þegar hann er staurblankur.
Eins og í flestum Billy Wilder myndum þá er sagan hröð og áhorfandinn vel með á nótunum allan tímann. Wilder lagði meira upp úr handritaskrifum heldur en kvikmyndatöku og þar af leiðandi eru myndir hans mun skemmtilegri og áhorfendavænni heldur en mörg önnur stór númer í kvikmyndasögunni. Þó svo að hann nái ekki að skapa ógleymanleg atriði með kvikmyndatöku þá tekst honum það með góðu handriti og góðri leikstjórn. T.d. er atriðið úr þessari mynd þar sem Don Bornham byrjar að sjá ofsjónir alveg kynngi magnað ásamt atriðinu þar sem hann er að leita að áfengisflösku sem hann faldi í íbúðinni sinni. Þessi atriði hefðu þá einungis verið skugginn af sjálfum sér ef ekki hefði verið fyrir fra´bæra frammistðu Ray Millan í aðalhlutverki myndarinnar.
Eftir að hafa horft á fimm Billy Wilder myndir, sem eiga að teljast þær bestu eftir hann, þá er ég kominn á þá skoðun að The Lost Weekend sé sú allra besta þeirra. Myndin er mjög áhrifarík og ógelymanleg og fer klárlega í hóp með bestu myndum sem ég hef séð.
*****
Monday, November 26, 2007
American Gangster
Á sama tíma starfaði lögregluþjóninn, Richie Roberts í eiturlyfjadeild lögreglunnar í New York. Hann var einn af örfáum heiðarlegum lögregluþjónum í borginni á þessum tíma og þáði aldrei mútugreiðslur. Hann barðist fyrir því af heilum hug að uppræta eiturlyfjasölu í borginni, þ.e. þeirri starfsemi sem Frank Lucas hafði lifibrauð af. Á sama tíma reynir Richie fyrir sér í lögmannsnámi í þeim tilgangi að fá málflutningsrétt fyrir dómstólum Bandaríkjanna.
Þetta eru sannir atburðir og um þetta fjallar kvikmyndin American Gangster.
Aðalpersónur myndarinnar eru leiknar af tveimur meisturum; Denzel Washington (Frank) og Russel Crowe (Richie). Þeir standa sem fyrr fyrir sínu og eiga stóran þátt í því að skapa eina bestu mynd ársins 2007. Russel Crowe hefur haft nokkuð hægt um sig í stórmyndagerð síðan hann gerði Gladiator en í þetta skiptið bregst honum ekki bogalistin. Vel er að verki staðið við gerð þessarar myndar að öllu leyti og þar að auki er hún skemmtilegt og spennandi frá upphafi til enda. Ég mæli með því að allir sem hafa áhuga á góðum bíómyndum skelli sér á þessa á meðan hún er enn í bíó.
****1/2
Rashomon
Það má segja að Rashomon sé sú kvikmynd sem kom Akira Kurosawa virkilega á kortið sem heimsklassa leikstjóri. Myndin vann Gullljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og fékk einnig Óskarsverðlaun sem besta erlenda mynd og vann Kurosawa þar sinn fyrsta Óskar. Rashomon hefur haft áhrif á fjölmargar kvikmyndir en þekktust þeirra er sennilega The Usual Suspects frá árinu 1995.
Myndin fjallar um morð á samúraia sem er séð frá fjórum mismunandi sjónarhornum. Enginn þeirra fjögurra sem tjáir sig um morðið hefur sömu að segja og samúrainn sjálfur, sem haft er samband við í gegnum miðil, segir að um sjálfsmorð sé að ræða. Eiginkona hans segir að hún sé valdur að morðinu en trésmiður nokkur og óþokkinn Tajomaru sammælast um það að sá síðarnefndi sé morðinginn. Sögurnar eru mistrúlegar og er áhorfandanum látið eftir að dæma um hvað gerðist í raun og veru.
Það sem er mest pirrandi við þessa mynd (sem og aðrar Kurosawa myndir) eru ýktir leiktilburðir. Af myndum Kurosawa að dæma geta japanskir leikarar hvorki hlegið né grátið án þess að gjörsamlega æra áhorfendur með hávaða og kjánalegum tilburðum. Aftur á móti er söguþráðurinn skemmtilegur og myndin er mjög vel gerð að flestu leyti. Hápunktur myndarinnar á sér svo stað í dramatískum endi þegar ein af persónum myndarinnar gerir upp tilfinningar sínar.
Sennilega finnst mörgum þessi mynd vera hundleiðinleg en ég hafði gaman að henni þó að sagan sé hæg á köflum. Aftur á móti er myndin mjög stutt, innan við 90 mínútur, svo það er nú ekki mikið mál að þrauka í gegnum þetta. En Rashomon er klárlega næstbesta Kurosawa mynd sem ég hef séð hingað til á eftir hinni ógleymanlegu Seven Samurai.
***1/2
Sunday, November 25, 2007
The Rules of the Game
Myndin fjallar í grófum dráttum um André Jurieux, sem er heimsfrægur flugmaður, og ást hans á Christine sem er einnig elskuð af tveimur öðrum mönnum; Octave og Robert, eiginmanni hennar. Í seinni hluta myndarinnar fer fram matarboð sem inniheldur þau öll og upphefst þá mikill farsi og dramatík.
Myndin er snilldarlega gerð að öllu leyti, leikurinn er til fyrirmyndar og persónusköpunin er með ólíkindum. Besta atriðið atriði myndarinnar jaðrar við að vera kvikmyndafræðileg fullkomnun en í því fara persónur myndarinnar á kanínuveiðar. Ein af skemmtilegri persónum myndarinnar er öryggisvörðurinn Schumacher en í lok myndarinnar er hann rekinn úr starfi sínu og er su stund svo dramatísk að áhorfendanum líður eins og það sé verið að reka hann sjálfan úr starfi. Annað dramatískt atriði á sér stað stuttu síðar þar sem ein af aðalpersónum myndarinnar er skotin til bana og sá áhorfandi sem fellir ekki tár yfir því atriði hlýtur að hafa steingert hjarta.
Enginn áhugamaður um kvikmyndir má láta þessa epík fram hjá sér fara enda má segja að franska rómatíkin hafa náð hápunkti sínum þegar þessi mynd kom út árið 1939. Myndin er bæði skemmtileg og dramtísk og hún inniheldur jafnframt mörg stórkostleg atriði. Jean Renoir hefur svo sannarlega stimplað nafn sitt í kvikmyndasögunni með því að gera þessi mynd en orð á borð við Snilld, meistari, snilld lýsa honum best. Þeir sem hafa ekki enn séð The Rules of the Game: Þið eruð að missa af heilmiklu!
*****