Tuesday, March 18, 2008

Oldboy

Kvikmyndin Oldboy kom út árið 2003 og er byggð á samnefndri Manga seríu sem var í sýningu á árunum 1996-98. Myndin fékk ýmis verðlaun þegar hún kom út en þar ber helst að nefna Grand Prix verðlaun Cannes hátíðarinnar en myndin var einnig tilnefnd til Gullpálmans. Oldboy var önnur myndin í nokkurs konar þríleik sem leikstjóri myndarinnar, Chan-wook Park, gerði um hefnd. Fyrsta myndin heitir Sympathy for Mr. Vengeance en sú þriðja Sympathy for Lady Vengeance.

Oldboy er ekki ein af þessum myndum sem er lengi að komast í gang vegna langrar kynningar á aðalpersónum heldur vindur hún sér beint í efnið á fyrstu mínútu. Framan af er aðeins ein persóna í myndinni, Oh Dae-su, sem er settur í einagrun án þess að hann viti af hverju. Hann dúsir í einangrunni án neinna samskipta við umheiminn í 15 ár en á þeim var aldrei talað við hann og hann fékk aldrei að vita fyrir hvað hann var einangraður, af hverjum eða hvers vegna. Eftir 15 ár vaknar hann svo á húsþaki án þess að fá neina skýringu á því hvað hann hafi gert til að verðskulda svona langa vist í einangrun.

Eftir því sem líður á myndina fylgjumst við með Oh Dae-seu hefja líf sitt að nýju og verður hann ástfanginn stúlkunni, Mi-do. Smám saman skýrist það svo hver hafi staðið fyrir því að einangra hann og hvers vegna en það kemur þó ekki full útskýring fyrr en í lokaatriðinu sem er epískt í meira lagi og sjaldan hef ég séð svakalegri endi á bíómynd. Þar reynir líka aldeilis á aðalleikar myndarinnar, Choi min-sik, en hann á algjöran stjörnuleik í myndinni.



Næsta efnisgrein inniheldur spoilera

Sjaldan hef ég séð jafnútpælt og ófyrirsjánlegt plott í bíómynd eins og það að láta Mi-do vera dóttur Oh Dae-sue. Þessi hefnd er svo ótrúlega þaulhugsuð og geðsjúk að það liggur við að maður sé ekki samur eftir að hafa horft á þess mynd - þó svo að þetta sé bara bíómynd. Viðbrögð Oh Dae-su í lokaatriðinu eru líka vel við hæfi þar sem hann skríður um eins og hundur og sker svo úr sér tunguna bara fyrir það að Mi-do þurfi ekki að fá að vita af þessu líka. Það eina sem mér fannst vera galli í sögunni er það hvað dáleiðsla var mikið notuð en það minnkar trú manns á þessu að nánast allt gerist fyrir tilverknað dáleiðslu.

Spoilerum lýkur


Leikstjóra myndarinnar tekst að skapa mjög sérstaka stemmningu út í gegnum myndina og tók ég sérstaklega eftir því að hann notar nálægð við persónurnar meira en venjulegt þykir. Klippingin er einnig mjög góð og tónlistin, Með stórgóðum leikurum, góðri uppbyggingu og áhugaverðum söguþræði smellur þetta allt saman og úr verður þrusugóð bíómynd.

Eins og ég sagði áður þá er myndin byggð á samnefndum Manga sjónvarpsþáttum og eftir á að hyggja tel ég að sagan mundi njóta sín betur í sjónvarpsþáttaformi. Það er svo mikið sem gerist á þeim tíma sem myndin spannar og það væri hægt að gera svo miklu meira úr þessum frábæra söguþræði ef hann þyrfti ekki að rúmast innan tveggja klukkutíma. Svo sé ég fyrir mér svakalegan lokaþátt þar sem lokaatriði myndarinnar er endanlegt climax. Mig langar rosalega til að sjá þessa Manga þætti en það er náttúrulega ekki nærri því jafngaman að sjá þá núna þegar maður veit plottið.


Oldboy er ein besta mynd síðustu ára sem ég hef séð og fáar myndir hafa haft jafnmikil áhrif á mig. Þessi mynd hefur allt að bera: góðan söguþráð, góðan leik, góða tónlist og sjúkt plott. Ef einhver hefur ekki enn séð þessa mynd þá er hann að missa af alveg fáránlega miklu.

*****

2 comments:

Siggi Palli said...

Flott færsla. 6 stig.

Siggi Palli said...

Endurskoðað. 7 stig.