El Orfanato var tilnefnd til 14 Goya verðlauna en vann 7 þeirra, samt ekki fyrir bestu mynd. Þar að auki hefur myndin verið að fá mjög góða dóma og er með 7,8 á IMDb (sem er reyndar ekkert að marka) en þykir ekki vera í sama klassa og þessar allra besta spænsku myndir á borð við El laberinto del Fauno
En hverjum er annars ekki drullusama um það allt saman því í þessari færslu er það mitt álit sem gildir - enda mitt blogg. Ég skellti mér einmitt í Regnbogann í gærkvöldi til að sjá El Orfanato á Græna ljósinu. Sagt er að salurinn loki um leið og Græna ljóss myndir byrja en ég komst að því í gær að það er tómt kjaftæði þar sem ég hef aldrei verið ónáðaður jafnmikið af rápandi bíógestum.
Söguþráður myndarinnar er mjög týpískur; sá sami og í flestum öðrum hrollvekjumyndum. Myndin gjallar sem sagt um tvö hjón og barnið þeirra sem búa í gömlu húsi sem var áður munaðarleysingjahæli Barnið er skyggnt og sér krakka sem dvöldu í húsinu þegar það hýsti munaðarleysingja og síðar fara dularfullir hlutir að eiga sér stað sem virðast tengjast sögu hússins að einhverju leyti. Allir hafa séð mynd með þessum söguþræði – oftast eru þær fyrirsjáanlegar og ömurlegar. Hins vegar er sagan virkilega vel útfærð í El Orfanato og plottið er stórgott og mjög ófyrirsjáanlegt. Einnig tekst að skapa þessa spennandi hrollvekjustemmningu sem ríkir í myndinni frá upphafi til enda. Eins gott að það er ekki hlé á myndum Græna ljóssins, það hefði eyðilagt myndina algjörlega. Myndin hefði hins vegar mátt enda svona fimm mínútum fyrr en hún gerði því þetta var orðið frekar kjánlegt undir blálokin.
Leikararnir í myndinni standa sig ágætlega, svo sem enginn stjörnuleikur. Þar að auki er lítill strákur í mjög stóru hlutverki þannig að kannski var ekki hægt að búast við öðru frá honum. Handritið er hins vegar mjög gott enda inniheldur það skemmtilegt plott sem sennilega enginn sér fyrir. Þar fyrir utan er myndin vel gerð að flestu leyti og sérstaklega fannst mér gott hvernig tónlistin hafði mikil áhrif í sumum atriðum.
Það virkilega langt síðan ég sá góða hrollvekjumynd síðast. Það liggur við að maður hafi verið farinn að sniðganga allar hrollvekjumyndir sem koma út; svo litla trú hafði maður á þeim. Juan Antonia Bayona tókst hins vegar hið ómögulega með El Orfanato, að búa til góða hrollvekjumynd þrátt fyrir að sögurþráðurinn væri svona rosalegu klisjukenndur og ófrumlegur. Einnig verð ég að minnast á “bregðuatriðin” í myndinni sem voru allsvakaleg. Nokkrum sinnum í myndinni brá mér svo rosalega að ég fékk gæsahúð að innan og sat stjarfur þó nokkra stund á eftir. Tær snilld.
El Orfanato er fyrsta alvöru myndin sem Juan Antonia Bayona leikstýrir og sá byrjar með trukki. Ef hann heldur áfram að bæta sig í framtíðinni þá gæti hann orðið einn a fremstu leikstjórum Spánverja. Ætli næsti Pedro Almódovar sé fundinn?
Í heildinna litið er El Orfanato mjög góð mynd og kemst hún í hóp með betri hrollvekjumyndum sem ég hef séð. Myndinni svipar að mörgu leyti til The Others sem kom út fyrir nokkrum árum en þar var Nicole Kidman í aðalhutverki. Það er erfitt að segja til um hvor þessara mynda er betri en báðar eru þær mjög góðar. Ég held að El Orfanato sé mynd sem flestir sem hafa taugar til ættu að hafa gaman að og það er algjört möst að sjá hana í bíó ef fólk ætlar að sjá hana á annað borð – hún yrði nokkrum klössum verri ef maður sæi hana heima í stofu.
****
2 comments:
Hljómar ansi vel.
Flott færsla. 7 stig.
Þú ert kominn með 28 stig á vorönn.
Post a Comment