Friday, March 21, 2008

El Orfanato

Spánverjar hafa sent frá sér nokkrar góðar myndir á seinustu árum en meðal þeirra má nefna Mar Adentro, La Mala Educacíón, Volver og síðast en ekki síst meistaraverkið, El Laberinto del Fauno. Núna hefur El Orfanato bæst í þennan hóp en leikstjóri El laberinto del Fauno, Guillermo del Toro (leikstýrði einnig Devil’s Backbone), er einn af framleiðendum myndarinnar. Leikstjóri, Juan Antonio Bayona, er hins vegar minni spámaður sem ég hafði aldrei áður heyrt um.

El Orfanato var tilnefnd til 14 Goya verðlauna en vann 7 þeirra, samt ekki fyrir bestu mynd. Þar að auki hefur myndin verið að fá mjög góða dóma og er með 7,8 á IMDb (sem er reyndar ekkert að marka) en þykir ekki vera í sama klassa og þessar allra besta spænsku myndir á borð við El laberinto del Fauno


En hverjum er annars ekki drullusama um það allt saman því í þessari færslu er það mitt álit sem gildir - enda mitt blogg. Ég skellti mér einmitt í Regnbogann í gærkvöldi til að sjá El Orfanato á Græna ljósinu. Sagt er að salurinn loki um leið og Græna ljóss myndir byrja en ég komst að því í gær að það er tómt kjaftæði þar sem ég hef aldrei verið ónáðaður jafnmikið af rápandi bíógestum.


Söguþráður myndarinnar er mjög týpískur; sá sami og í flestum öðrum hrollvekjumyndum. Myndin gjallar sem sagt um tvö hjón og barnið þeirra sem búa í gömlu húsi sem var áður munaðarleysingjahæli Barnið er skyggnt og sér krakka sem dvöldu í húsinu þegar það hýsti munaðarleysingja og síðar fara dularfullir hlutir að eiga sér stað sem virðast tengjast sögu hússins að einhverju leyti. Allir hafa séð mynd með þessum söguþræði – oftast eru þær fyrirsjáanlegar og ömurlegar. Hins vegar er sagan virkilega vel útfærð í El Orfanato og plottið er stórgott og mjög ófyrirsjáanlegt. Einnig tekst að skapa þessa spennandi hrollvekjustemmningu sem ríkir í myndinni frá upphafi til enda. Eins gott að það er ekki hlé á myndum Græna ljóssins, það hefði eyðilagt myndina algjörlega. Myndin hefði hins vegar mátt enda svona fimm mínútum fyrr en hún gerði því þetta var orðið frekar kjánlegt undir blálokin.

Leikararnir í myndinni standa sig ágætlega, svo sem enginn stjörnuleikur. Þar að auki er lítill strákur í mjög stóru hlutverki þannig að kannski var ekki hægt að búast við öðru frá honum. Handritið er hins vegar mjög gott enda inniheldur það skemmtilegt plott sem sennilega enginn sér fyrir. Þar fyrir utan er myndin vel gerð að flestu leyti og sérstaklega fannst mér gott hvernig tónlistin hafði mikil áhrif í sumum atriðum.


Það virkilega langt síðan ég sá góða hrollvekjumynd síðast. Það liggur við að maður hafi verið farinn að sniðganga allar hrollvekjumyndir sem koma út; svo litla trú hafði maður á þeim. Juan Antonia Bayona tókst hins vegar hið ómögulega með El Orfanato, að búa til góða hrollvekjumynd þrátt fyrir að sögurþráðurinn væri svona rosalegu klisjukenndur og ófrumlegur. Einnig verð ég að minnast á “bregðuatriðin” í myndinni sem voru allsvakaleg. Nokkrum sinnum í myndinni brá mér svo rosalega að ég fékk gæsahúð að innan og sat stjarfur þó nokkra stund á eftir. Tær snilld.


El Orfanato er fyrsta alvöru myndin sem Juan Antonia Bayona leikstýrir og sá byrjar með trukki. Ef hann heldur áfram að bæta sig í framtíðinni þá gæti hann orðið einn a fremstu leikstjórum Spánverja. Ætli næsti Pedro Almódovar sé fundinn?

Í heildinna litið er El Orfanato mjög góð mynd og kemst hún í hóp með betri hrollvekjumyndum sem ég hef séð. Myndinni svipar að mörgu leyti til The Others sem kom út fyrir nokkrum árum en þar var Nicole Kidman í aðalhutverki. Það er erfitt að segja til um hvor þessara mynda er betri en báðar eru þær mjög góðar. Ég held að El Orfanato sé mynd sem flestir sem hafa taugar til ættu að hafa gaman að og það er algjört möst að sjá hana í bíó ef fólk ætlar að sjá hana á annað borð – hún yrði nokkrum klössum verri ef maður sæi hana heima í stofu.

****

Tuesday, March 18, 2008

Oldboy

Kvikmyndin Oldboy kom út árið 2003 og er byggð á samnefndri Manga seríu sem var í sýningu á árunum 1996-98. Myndin fékk ýmis verðlaun þegar hún kom út en þar ber helst að nefna Grand Prix verðlaun Cannes hátíðarinnar en myndin var einnig tilnefnd til Gullpálmans. Oldboy var önnur myndin í nokkurs konar þríleik sem leikstjóri myndarinnar, Chan-wook Park, gerði um hefnd. Fyrsta myndin heitir Sympathy for Mr. Vengeance en sú þriðja Sympathy for Lady Vengeance.

Oldboy er ekki ein af þessum myndum sem er lengi að komast í gang vegna langrar kynningar á aðalpersónum heldur vindur hún sér beint í efnið á fyrstu mínútu. Framan af er aðeins ein persóna í myndinni, Oh Dae-su, sem er settur í einagrun án þess að hann viti af hverju. Hann dúsir í einangrunni án neinna samskipta við umheiminn í 15 ár en á þeim var aldrei talað við hann og hann fékk aldrei að vita fyrir hvað hann var einangraður, af hverjum eða hvers vegna. Eftir 15 ár vaknar hann svo á húsþaki án þess að fá neina skýringu á því hvað hann hafi gert til að verðskulda svona langa vist í einangrun.

Eftir því sem líður á myndina fylgjumst við með Oh Dae-seu hefja líf sitt að nýju og verður hann ástfanginn stúlkunni, Mi-do. Smám saman skýrist það svo hver hafi staðið fyrir því að einangra hann og hvers vegna en það kemur þó ekki full útskýring fyrr en í lokaatriðinu sem er epískt í meira lagi og sjaldan hef ég séð svakalegri endi á bíómynd. Þar reynir líka aldeilis á aðalleikar myndarinnar, Choi min-sik, en hann á algjöran stjörnuleik í myndinni.



Næsta efnisgrein inniheldur spoilera

Sjaldan hef ég séð jafnútpælt og ófyrirsjánlegt plott í bíómynd eins og það að láta Mi-do vera dóttur Oh Dae-sue. Þessi hefnd er svo ótrúlega þaulhugsuð og geðsjúk að það liggur við að maður sé ekki samur eftir að hafa horft á þess mynd - þó svo að þetta sé bara bíómynd. Viðbrögð Oh Dae-su í lokaatriðinu eru líka vel við hæfi þar sem hann skríður um eins og hundur og sker svo úr sér tunguna bara fyrir það að Mi-do þurfi ekki að fá að vita af þessu líka. Það eina sem mér fannst vera galli í sögunni er það hvað dáleiðsla var mikið notuð en það minnkar trú manns á þessu að nánast allt gerist fyrir tilverknað dáleiðslu.

Spoilerum lýkur


Leikstjóra myndarinnar tekst að skapa mjög sérstaka stemmningu út í gegnum myndina og tók ég sérstaklega eftir því að hann notar nálægð við persónurnar meira en venjulegt þykir. Klippingin er einnig mjög góð og tónlistin, Með stórgóðum leikurum, góðri uppbyggingu og áhugaverðum söguþræði smellur þetta allt saman og úr verður þrusugóð bíómynd.

Eins og ég sagði áður þá er myndin byggð á samnefndum Manga sjónvarpsþáttum og eftir á að hyggja tel ég að sagan mundi njóta sín betur í sjónvarpsþáttaformi. Það er svo mikið sem gerist á þeim tíma sem myndin spannar og það væri hægt að gera svo miklu meira úr þessum frábæra söguþræði ef hann þyrfti ekki að rúmast innan tveggja klukkutíma. Svo sé ég fyrir mér svakalegan lokaþátt þar sem lokaatriði myndarinnar er endanlegt climax. Mig langar rosalega til að sjá þessa Manga þætti en það er náttúrulega ekki nærri því jafngaman að sjá þá núna þegar maður veit plottið.


Oldboy er ein besta mynd síðustu ára sem ég hef séð og fáar myndir hafa haft jafnmikil áhrif á mig. Þessi mynd hefur allt að bera: góðan söguþráð, góðan leik, góða tónlist og sjúkt plott. Ef einhver hefur ekki enn séð þessa mynd þá er hann að missa af alveg fáránlega miklu.

*****